Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:34:05 (719)


[14:34]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er kannski eins tilbúinn að ræða ítarlega um þetta mál og ég hefði kosið því ég átti satt að segja ekki von á því að það yrði hér á dagskrá. Þetta er mál nr. 119 og fjöldi mála sem fram hafa verið lögð eru 144 sem komið er þannig að ég átti satt að segja ekki von á að þetta kæmi svo skyndilega hér til umræðu. En þó vil ég segja hér örfá orð, mér gefst að vísu tækifæri til að fjalla ítarlegar um þetta mál í samgn. þar sem ég á sæti, en ég tel það mjög nauðsynlegt að samgn. og þingið allt fjalli mjög ítarlega um þessi mál sem hér eru til umræðu. Ég bendi m.a. á þar sem vikið er að skipulagsmálum í þessu frv. Þar er gripið á ýmsum þáttum sem nauðsynlegt er að fara ítarlega út í og fjalla um og fá skýringar við. Einnig eins og hér var vikið að áðan af fyrri ræðumanni í sambandi við girðingarþáttinn, þar þarf að fara um af nokkurri vandvirkni og með ákveðinni tillitssemi. En það eru hér stærri mál, ég veit ekki hvort er stærra, en mig langar aðeins til að vitna í, eins og gert hefur verið, sérálit Þórðar Skúlasonar þar sem einmitt er farið yfir 8. gr. frv. sem er náttúrlega umhugsunarefni og við hljótum að þurfum að taka allítarlega umræðu um. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Það er álit undirritaðs, að flokkun stofn- og tengivega í þéttbýli samkv. hinni nýju skilgreiningu í 8. gr. frumvarpsins muni leiða til þess, að stofn- og tengivegir í þéttbýli verði um þriðjungi styttri en þjóðvegir í þéttbýli samkv. núgildandi reglugerð þar um. Þannig færðist þriðjungur stofn- og viðhaldskostnaðar þjóðvega í þéttbýli yfir á hendur sveitarfélaga án þess að þeim væri í nokkru bættur sá kostnaðarauki.``

    Hér er auðvitað verið að tala um gríðarlega stórt mál fyrir sveitarfélögin og ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra við þessa umræðu hvernig með þetta verði farið, hvort það sé virkilega meiningin að koma ekkert til móts við þær álögur eða þann aukakostnað sem hér er beint verið að færa yfir á sveitarfélögin.
    23. gr. er einnig umhugsunarefni líka og mig langar að fá skýringar við hjá hæstv. ráðherra þar sem talað er um ferjurnar, en þar stendur: ,,Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr árinu. Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur.``
    Hér er nefnilega eins og segir í umsögn frá fjmrn. til skýringar að heimilt sé að greiða kostnað við ferjur af vegáætlun enda komi ferjan í stað vegasambands --- og ég legg áherslu á það --- enda komi ferja í stað vegasambands. Í ákvæðum til bráðabirgða við frv. segir þó að í þrjú ár sé heimilt að greiða kostnað við ferjur þó þær uppfylli ekki skilyrði um að koma í stað vegasambands. Þannig mundu t.d. framlög til Akraborgarinnar og Fagranessins falla niður eftir þrjú ár að óbreyttu.
    Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra einnig hvort það sé þá meiningin að þessu samþykktu að að þremur árum liðnum muni framlög t.d. til Akraborgarinnar og Fagranessins falla niður.
    Það eru fleiri ákvæði og atriði í þessu frv. sem ég hefði haft vissulega ástæðu til þess að fara ítarlegar yfir í viðræðum við hæstv. ráðherra en ég geymi mér það nú vegna þess að ég hef þá aðstöðu með setu í samgn. að ræða þetta mál þá ítarlegar við fulltrúa Vegagerðarinnar og ráðuneytisins sem munu verða kallaðir fyrir nefndina en á þessu stigi vildi ég bera fram þessar óskir til hæstv. ráðherra og vona að hann geti svarað mér einhverju þar um.