Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:26:22 (729)


[15:26]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er verið að athuga það hvernig menn vilja standa að samgöngum inni í Djúpi. Menn eru annars vegar að reyna að gera sér grein fyrir hvað það kosti að koma viðunandi aðstöðu upp til þess að Fagranesið geti verið bílferja á milli Ísafjarðar og Ísafjarðar, ef ég má orða það þannig. Auðvitað kostar það verulega fjármuni. Ég er ekki með það nákvæmlega hvað við erum að tala um mikla fjármuni þegar búið verður að byggja bryggju, komið verður plan, aðstaða til þess að fólk geti beðið eftir ferjunni og þar fram eftir götunum. Við erum að tala um verulega fjármuni. Á móti hef ég talað um það hvort ekki sé nauðsynlegt að horfa á aðra kosti líka. Það er alveg ástæðulaust að vera að snúa út úr því. Það er verið að reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu um samgöngumál Djúpsins að þessu leyti. Almennt hef ég lýst því yfir að ég telji það einna brýnasta málið í samgöngumálum hér á landi að ljúka Djúpveginum, að gera áætlun um það hvenær hægt verði að koma bundnu slitlagi inn allt Djúpið. Sömuleiðis hef ég lagt áherslu á nauðsyn framhalds á veginum yfir Gilsfjörð, eftir að hann er kominn til að stytta leiðina til Ísafjarðar, hvort sem farið verður Kollafjarðarveginn eða Þorskafjarðarheiðina. Mér finnst alveg ástæðulaust að vera að tala um þetta á einhverjum öðrum nótum en þessum. Ég hef áhuga á því að reyna að beita mér fyrir góðum samgöngum einmitt þarna fyrir vestan og fór sérstaklega í sumar til að sjá hvernig Kollafjarðarheiðin lítur út, sem ég vissi ekki áður, og satt að segja langar mig til að fara hana aftur.