Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 16:03:39 (740)


[16:03]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hinar prúðmannlegu athugasemdir sem hér hafa verið bornar fram frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þær eru út af fyrir sig vangaveltur á vissan hátt um þessa hluti. En það sem situr fastast í mínu höfði er út af fyrir sig sú eina staðreynd að sömu peningar verða ekki notaðir tvisvar. Það er út af fyrir sig sagt að þetta eigi að vera hlutafélag sem geri þetta en í þeirri skýrslu sem ég las um þetta mál kom greinilega fram að þeir töldu að það væri forsenda fyrir því að þeir fengju lánsfé með nægilega hagstæðum kjörum að um ríkisábyrgð yrði að ræða. Þess vegna sýnist mér að það sé ekki óeðlilegt þó að menn meti það svo að þarna sé í reynd verið með vegafé, í það minnsta er það í áhættunni, og þess vegna sé spurningin: Hvað er skynsamlegast að gera fyrir það takmarkaða fé sem við höfum til að bæta þessa leið til að ná þar auknum hraða?
    Nú er það svo að mér er fullkomlega ljóst að þetta mál er á því stigi að sumir telja að það sé nánast landráð við hugmyndina að ræða það að brúa. Hins vegar sýnist mér að það væri hægt að fá tilboð í brúargerð sem væri miklu áhættuminna að gera heldur en tilboð í jarðgöngin. Það mundi eilíflega vera með stórkostlegum fyrirvörum um það hversu mikið vatn kæmi í göngin. Þar yrði sá fyrirvari settur. Ég hefði gaman af að sjá framan í þann verktaka sem mundi taka þá áhættu að bjóða í þessi jarðgöng fasta upphæð án nokkurs fyrirvara. En það væri vafalaust hægt að fá slíkt tilboð í brúargerð yfir Hvalfjörð. Kannski er eðlilegt að það yrði leitað útboðs á báðu.