Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:35:05 (745)


[11:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vera má að það sé á mörkunum að hægt sé að kalla þetta andsvar en ég vildi svara tveimur síðustu hv. ræðumönnum. Ég hef þegar sagt frá því að ég tel að þetta frv. sé afar gott og vel unnið og sé dæmi um það að stjórnarandstaðan geti verið málefnaleg og unnið mál með þessum hætti og ég vil bara ítreka það. Hins vegar geta hv. þm. ekki á þessari stundu fengið skýr svör frá mér um það hvort ég muni beita mér nákvæmlega fyrir þeim efnisatriðum sem standa í þessu frv. Ég mun taka frv., það fer inn í þá vinnu sem er nú hafin í ráðuneytinu og ég mun kappkosta að nefndin geti ásamt þeim sem hafa verið að vinna að málinu í ráðuneytinu, rætt þetta mál ítarlega. En það er of fljótt fyrir mig að lýsa því yfir hver skoðun mín er á einstökum efnisatriðum enda er málið mjög flókið og ég sé eftir stuttan lestur að það þarf að skoða sumt af því sem er í frv. mun betur en þar er gert enda eru viss atriði nokkuð opin. Þetta vildi ég að kæmi fram þótt varla sé hægt að kalla þetta andsvar við því sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns.