Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 12:03:18 (758)


[12:03]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :

    Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka undirtektir við þetta mál og þá miklu umræðu sem það fékk hér á þessum þingfundi. Ég vænti þess að það sem ég sagði í upphafi að þetta frv. er fyrst og fremst tilraun til að hefja þessa umræðu og taka á þessu stóra máli sem hefur svo lengi legið kyrrt í þjóðfélaginu og framtíðin þolir ekki slíkt.
    Hér hafa menn komið inn á mörg atriði og hér síðast hv. þm. Páll Pétursson, taldi frv. hafa stóra galla og ræddi um að félagshyggjan í frv. væri ekki næg. Nú ætla ég ekki að fara að reyna að túlka hvaða viðhorf ég í sjálfu sér hef en það er hárrétt hjá honum að ég tel mig einstaklingshyggjumann með félagslegu ívafi. Ég tel að menn megi ekki misnota félagshyggju. Við þurfum í þessu samfélagi að búa þeim veika, smáa og þeim aldraða ákveðið öryggi en félagshyggjan má ekki ganga svo út fyrir mörk að hún drepi framtakið í dróma. Ég hygg að ef hv. þm. les þetta frv. af kostgæfni þá muni hann sjá að við tökum á öllum aðalatriðum til að vernda og verja litla manninn. Hann ætti að vera gulltryggur í gegnum þetta frv. en meginatriðið er það að við ögum peningamarkaðinn á Íslandi með nýjum hætti, eins og hér hefur komið fram, til þátttöku í atvinnulífi og við forðum íslensku samfélagi frá því stórslysi sem blasir við. Ég kallaði það ógnvænlega tímasprengju í mínu máli. Við skulum gá að því þótt einhverjir þykist geta sloppið þegar tímasprengjan springur, ef við verðum samfélag áfram sem ég vona, þá er mér ljóst að það sleppur enginn ef sprengjan springur. Því þá verða þeir sem eru í öruggu sjóðunum að taka á sig skellinn í gegnum skatta o.fl. En aðalatriðið er það nú hvar sem menn standa í flokki og ég hygg að það sé svo með flesta Íslendinga að þeir skilja ekkert betur heldur en veskið sitt. Það er nefnilega svo að hugur manna liggur nærri veskinu, jafnvel býr hjarta margra í veskinu. Þess vegna er það sem betur fer að þjóðin hefur verið að vakna til vitundar um það að með peninga hvers og eins og almennings verður að fara af gætni. Og ég hygg að almenningur sé á þeirri skoðun sem hér hefur komið fram að lífeyrissjóðakerfið eins og það er rekið hefur ekki farið vel með peninga almennings. Því er illa stjórnað og það rekur áfram án lagasetningar og án eftirlits. Og það sem er stærst í því máli er að þar búa tvær þjóðir. Opinberir starfsmenn búa við öruggt kerfi að því er þeir telja en aftur á móti þeir sem eru á almennum markaði búa við allt önnur kjör, þeir búa við óvissuna um hvort sjóðurinn verði gjaldþrota þegar að honum er komið. Við skulum hugleiða það sem er kannski hámark tvískinnungsháttarins að það skuli viðgangast að foringi fólksins á almennum markaði, forseti Alþýðusambands Íslands, tekur sín lífeyrisréttindi úr sjóði opinberra starfsmanna. Hann greiðir í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna á meðan þeir sem hann er að berjast fyrir eru margir hverjir í sjóðum sem ljóst er að geta ekki staðið við sínar skuldbindingar.
    Ég vil þá svona að lokum taka undir það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich kom inn á og ég í minni upphafsræðu. Eins og hann benti á er áhættufjárfesting lífeyrissjóðanna, sem í dag eru með fjármagn sem er að nálgast 200 milljarða kr., væri sama og engin en aðeins 2,7 milljarðar kr. í áhættufjárfestingu, sagði hv. þm. og fór vel yfir það svið hversu tvískinnungshátturinn er í sambandi við ýmis mál sem snúa að atvinnulífinu og ég gerði að umtalsefni í minni ræðu. Þess vegna er mikilvægur kafli í þessu frv. sem boðar það að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í atvinnulífinu og taki þátt í að endurreisa það og breyta þessu samfélagi á betri veg. Þetta er mjög stórt atriði í þessu frv.
    Hér hafa menn eytt löngu máli í að ræða það hversu málið á langa sögu og hverjir eru upphafsmenn. Það skiptir engu máli. Ég fagna því bara að menn flytji sem flest mál af þessum toga og taki þetta mál til umræðu á hinum pólitíska vettvangi hvar sem þeir fara.
    Ég hef hér nokkur þing flutt annars konar mál sem ég er kannski enn þá skotnari í en þessari hugmynd en því miður var það þingsályktun og tókst í öllum aðalatriðum að drepa umræðu um það mál, en það sneri að því að hver einasti einstaklingur ætti sinn eigin eftirlaunasjóð. Þar gerði ég t.d. merkilega athugun á því að t.d. ef maður með 70.000 kr. á mánuði, sem eru nú lág laun, greiddi 7.000 kr. í þennan sjóð sinn og hefði aðeins 5% raunvexti á þetta sparifé, lífeyrissjóðirnir eru að taka 8--10% í dag, þá reiknaði ég það út að þessi ungi maður sem væri á svo lágum launum ætti að starfsdegi loknum eftir 45 ár 13,5 millj. kr. og gæti á næstu 30 árum greitt sér hvorki meira né minna en 74.000 á mánuði. 100.000 kr. maðurinn á mánuði ætti með þessum hætti 20 millj. og gæti greitt sér 104 þús. á mánuði á næstu 30 árum.
    Þetta mál fékk góðar undirtektir í þjóðfélaginu en það var ekki frv. og fékk ekki þá umræðu sem ég vona að jafn vel unnið og viðamikið frv. þetta hlýtur að fá, ekki bara hér á Alþingi heldur einnig í verkalýðshreyfingunni, í atvinnulífinu og verði til þess að ríkisstjórnin, eins og hér hefur kannski verið heitið í þessari umræðu þar sem hæstv. fjmrh. og hæstv. umhvrh. hafa lýst góðum viðhorfum til vinnu þessa frv. og styðja í meginatriðum mörg atriði í því, að það verði til þess að okkur takist nú á næstu missirum að leysa þetta stóra mál og marka lífeyrissjóðunum framtíðarbraut sem verður almenningi á Íslandi til heilla.