Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:11:39 (765)


[13:11]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég taldi nú að afstaða mín kæmi nokkuð skýrt fram í minni framsögu. Afstaða mín er sú að að því gefnu að þær breytingar séu gerðar á okkar stjórnsýslu að sá þáttur þess starfs sem hefur farið fram á vegum þingmanna og Alþingis sem stendur næst kjósendum, sem stendur næst framkvæmdarvaldinu og hefur mesta skírskotun til héraðsbundinna hagsmuna, að því tilskildu að sá þáttur sé fluttur heim til héraðanna, þá gæti ég séð það fyrir mér og talið eðlilegt að eftir stæði landið sem eitt kjördæmi í kosningum til löggjafarsamkomunnar. Það væri að vísu að verulegu leyti öðruvísi löggjafarsamkoma heldur en við sitjum á í dag sem kannski, eins og einn góður benti mér á á fundi fyrir norðan fyrir nokkrum dögum, mundi beita sér að hinni hreinu löggjöf, að samskiptunum við útlönd og kannski öðru fremur forða því að menn gerðu þar stórar vitleysur.