Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:47:17 (780)


[13:47]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eins og væntanlega fleiri landsmenn fylgdist ég með landsfundi Sjálfstfl. í gegnum Moggann en það víðsýna og frjálslynda blað breytist nú ævinlega í ómengað flokksblað á ögurstundum í lífi flokksins stóra og sagði okkur náttúrlega frá öllu sem þarna gerðist. Þar las ég reyndar mér til mikillar undrunar að aðalmálið og brýnasta verkefnið fram undan hjá ríkisstjórninni núna og væntanlega þinginu væri að vinna að breytingum að kosningalögum og kjördæmaskipan. Ég hélt reyndar að það væru ýmis stærri og brýnni verkefni sem þessi þjóð þyrfti að takast á við, en látum vera. Síðan sé ég hér að það voru 1.800 manns sem voru viðstaddir setningu fundarins sem ætluðu að taka á þessu máli. Það verður að segja um þetta eins og fjallið, það tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Því ég sé ekki betur en í þessari ályktun Sjálfstfl. sé einfaldlega ekki tekið á þessu máli. Það er sagt að það þurfi að jafna atkvæði, það vita menn og það hafa margir sagt hér um langan tíma. Það er líka sagt að það þurfi að fækka þingmönnum. Ég sé nú ekki að það hafi svo mikið með þetta mál að gera. Síðan er boðið upp á annars vegar einmenningskjördæmi og hins vegar landið eitt kjördæmi. Á milli þessara tveggja hugmynda er himinn og haf og þetta segir mér ekkert um stefnu Sjálfstfl. í þessu máli.