Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:26:22 (799)

[14:26]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er vel þekkt staðreynd að í öllum flokkum er svona á bak við tjöldin viss áhugi á því að fækka tilteknum þingmönnum. Það þekki ég, en við höfum svo sem ekki hátt um það, hvorki ég né hv. þm. Björn Bjarnason. Við þekkjum okkar heimafólk.
    Ég var fyrst og fremst að leggja hér áherslu á þá aðferðafræði sem ég tel vera rétta í þessum efnum. Ég tel þetta vera stórmál af því tagi að það eigi fyrst og fremst að meðhöndlast sem slíkt í samstarfi og samskiptum forustumanna flokkanna, formanna flokka og formanna þingflokka eðli málsins samkvæmt.
    Varðandi þetta sérstaka álitamál, að fækka þingmönnum, þá er talan 63 eða 50 eða 90 ekkert sáluhjálparatriði í mínum huga svo lengi sem fjöldi þeirra er nægur til þess að í fyrsta lagi eigi öll byggðarlög og allir landshlutar með eðlilegum hætti raddir sínar hér inni á þinginu. Í öðru lagi sé tryggt með lýðræðislegum hætti jafnræði skoðana hér á löggjafarsamkundunni. Hið praktíska verkefni okkar er að búa því þannig umgjörð í löggjöf að þessi markmið nái fram að ganga. Ef við komumst af með 50 þingmenn til þess þá er það allt í góðu lagi og ábyggilega miklu meira en nóg í sjálfu sér miðað við stærð þjóðarinnar að hafa þá svo marga. En ég segi hins vegar að það er að mínu mati ekkert sáluhjálparatriði þó svo það verði okkar niðurstaða að við þurfum að hafa þá 60 eða 65 til þess að ná fram öllum þessum markmiðum sem við eigum að reyna að sætta í skynsamlegri kosningalöggjöf. Og gagnvart þeim erfiðleikum sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir nú, atvinnuleysi, erlendum skuldum og öðru slíku, þá teldi ég það mikið glapræði að fara að skipta henni nú upp á þessum dögum í harkaleg átök um kosningalöggjöfina. Það eru aðrir og nærtækari hlutir sem við ættum að beina kröftum okkar að.