Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:30:12 (801)


[14:30]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er misskilningur að ég hafi ekki hlýtt á framsöguræðu 1. flm. Ég lagði það einmitt á mig til þess að reyna að glöggva mig á málinu. Sömuleiðis var ég búinn að lesa þessa tillögu spjaldanna á milli. Það er svo sem ekki mikið verk því hún er ein örk og tóm að innan og á baksíðunni, þannig að það er nú ekki lengi gert. Meiri rökstuðning sáu flm. nú ekki ástæðu til að hafa þarna en hálfa framsíðuna. Ég er líka ágætlega læs á sjálfa tillgr. og það er það sem ég var að gagnrýna, hv. þm. Ég var að gagnrýna það að í 1. mgr. tillgr. er þetta bundið við það að skoða þennan tiltekna og eina kost, að landið verði gert að einu kjördæmi.
    Það er síðan alveg rétt að í síðustu málsgreininni er fjallað um það að þetta þurfi að skoða í samhenginu við það hvernig verði með tilfærslu verkefna frá ríki til héraða. En við vitum það báðir, ég og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, að þar eru nú flest fuglar í skógi um þessar mundur en ekki í hendi. Ég á eftir að sjá hvað út úr því kemur, ef nokkuð, á næstu árum eins og þau mál hafa þróast. Þess vegna held ég að það væri rétt að fá þá a.m.k. eitthvað fast land undir fætur í því, svo sem með því að afgreiða þá samtímis eða í tengslum við endurskoðun kosningalöggjafarinnar og kjördæmaskipanarinnar, einhvers konar nýja stjórnsýsluskipan fyrir landið. Væri þetta hvort tveggja samferða þá gæti það auðvitað og eðlilega komið til skoðunar.
    Það er auðvitað hárrétt sem hv. flm. benda á að ef til þess kæmi að menn færu að gera þá stórkostlegu kerfisbreytingu hér að landið yrði allt eitt kjördæmi, þá kæmu örugglega upp umræður um margþættar breytingar í kjölfarið eða samtímis, t.d. að þá yrði á ný tekin upp á borðið hugmyndin um að kjósa til stjórnsýslustigs í landshlutunum. Það er óhjákvæmilegt að menn mundu taka þá umræðu upp á borðið. Það sýnir mönnum eingöngu stærð þessa máls og hversu viðamikil breyting þetta væri, ef til kæmi.
    Svo er það ekki rétt að það pirri mig eitthvað að þessi mál séu rædd, síður en svo. En ég áskil mér nú rétt til þess að hafa skoðun á því hvernig best væri að standa að því eftir sem áður og get verið í prýðilegu skapi þegar ég ræði það ef því er að skipta.