Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:45:04 (808)

[14:45]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í samanburði sínum varðandi vægi atkvæða nefndi hæstv. umhvrh. úrslit síðustu kosninga sem ég tel vera afar ósanngjarnan samanburð því að þá háttaði þannig til að hinn svokallaði flakkari kom fyrir tilviljunar sakir í hlut Vestfirðinga og breytti auðvitað nokkru vægi atkvæða. Ég nefndi það hér áðan í ræðu minni að eðlilegast væri þegar menn eru að bera saman vægi atkvæða að bera saman úrslitin miðað við þá hefðbundnu þingmannatölu sem viðkomandi kjördæmi hefðu. Og eftir því sem ég hef upplýsingar um þá mun misvægi atkvæða eftir t.d. kosningarnar 1987 milli Vestfjarða og Reykjavíkur hafa verið álíka og t.d. þekkist í Bretlandi sem er nú vagga þingræðisins, þannig að ég tel að þetta sé afar ósanngjarn samanburður hjá hæstv. umhvrh.