Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:58:12 (813)

[14:58]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég átta mig ekki enn á því sem hv. þm. er að fara, hvað hann er að fara þegar hann segir að fulltrúar hér í þéttbýlinu fái alltaf sína fulltrúa kjörna á undan öðrum. Ef hann er að tala um landið sem eitt kjördæmi þá mun það náttúrlega ráðast af því hvernig flokkarnir raða mönnum niður á sína framboðslista og það verður þá það sem ræður mestu um það hvernig menn komast inn á þingið en ekki endilega eftir því hvar menn eru búsettir. Það er einmitt talið einn af höfuðókostum þess kerfis að hafa landið eitt kjördæmi, hve erfitt kann að verða að raða mönnum niður á framboðslistana með tilliti til þess að þeir endurspegli sem best vilja sem flestra kjósenda eða sem víðast af landinu. Og þetta er einmitt höfuðókosturinn við þá hugmynd sem hér er gerð að umtalsefni, landið eitt kjördæmi, en það snertir ekki hitt hvort menn njóti sömu mannréttinda hvar sem þeir búa því við hljótum öll að vera sammála um að það sé eðlilegt að menn njóti hér sömu mannréttinda.