Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:59:25 (814)


[14:59]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég var nú að tala út frá því kerfi sem nú er gildandi en ekki út frá landinu sem einu kjördæmi þegar ég var að bera saman þessa hluti. Núgildandi kerfi kemur einfaldlega svona út, að fólk fær fyrst kosna sína fulltrúa hér inn á þéttbýlissvæðunum áður en fulltrúar komast inn á kostnað fólks hér í þéttbýlinu úti á landsbyggðinni. Þannig virkar það. Það sem ég er að segja er að ég get ekki séð að þetta sé brot á mannréttindum, einfaldlega vegna þess að fólkið hér hefur aðgang að fulltrúum og ég teldi að það væri frekar hægt að segja að það væri brot á mannréttindum að snúa þessu við, að taka fulltrúa burt af landsbyggðinni þannig að fólkið þar hafi ekki fulltrúa í viðkomandi kjördæmum til að snúa sér til. En vegna þess að búið er að jafna vægi atkvæða milli flokkanna þá tel ég að það sé ekki hægt að tala um nein mannréttindabrot. Mér finnst menn ganga allt of langt í samlíkingum þegar þeir ræða um það á þeim nótum.
    Ég hef hins vegar gert mér grein fyrir því að menn eru mjög óánægðir með þetta fyrirkomulag í þéttbýlinu og það er þess vegna sem ég hef ljáð máls á því að ræða um aðra hluti og tel það eðlilegt og þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að raunverulega séu menn bara að tala um eitt. Menn eru að tala um

að fækka fulltrúum á landsbyggðinni. Ég hef ekki séð neina leið til þess að gera það með réttlæti þannig að fulltrúar séu þá fyrir ákveðin landsvæði, allir hafi möguleikana, sama og jafna, öðruvísi en að breyta landinu í eitt kjördæmi. Og það er þess vegna sem ég hef léð því lið.