Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:06:13 (819)


[15:06]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða fer nú vítt og breitt um landið og miðin, en ég lít þannig á að með

þessari tillögu sé fyrst og fremst verið að taka upp umræðuna um kjördæmaskipanina. Hér er lögð til ein ákveðin leið sem sjálfsagt er að kanna, en þær eru auðvitað fleiri og það er þingsins að ákveða það hvernig meðferð þessa máls verður háttað.
    En ég verð að lýsa því hér að mér þykir þessi umræða hafa verið að mörgu leyti mjög sérkennileg og menn gleyma því stundum um hvað málið snýst. Málið snýst um kosningarrétt, kosningarrétt fólks. Það er fólk sem hefur kosningarrétt, ekki landshlutar. Það er ekki verið að kjósa fulltrúa landshluta. Það er verið að kjósa fulltrúa fólksins í landinu. Það er fólkið sem er að kjósa sér sína fulltrúa til þess að setja lög og stýra landinu. Og hverjar eru skyldur þingmanna? Skyldur þingmanna eru fyrst og fremst þær að hugsa um hagsmuni heildarinnar. Það eru hagsmunir heildarinnar sem eiga að sitja í fyrirrúmi. Síðan verða menn auðvitað að gæta þess sem sérstaklega kemur upp í einstökum landshlutum. En grundvöllurinn er auðvitað sá að við erum að tala um rétt fólks og sá réttur á að vera sem jafnastur og það kosningakerfi sem við búum við þarf að vera eins einfalt og réttlátt og hægt er. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum hér 260 þúsund manns, að vísu í stóru landi og búum dreift en við hljótum að spyrja okkur: Hvað er eðlilegt að deila landinu niður í mörg kjördæmi? Ég treysti mér ekki til að svara því af því að ég sé að það eru ýmsar leiðir til í þessu. Það má hugsa sér landið eitt kjördæmi, það má hugsa sér það 2, 3, 4. Það má hugsa sér persónukjör, það eru ýmsar leiðir sem eru færar. Í því samhengi langar mig að minna á að það er búið að breyta kjördæmaskipaninni og vægi þingsæta býsna oft á þessari öld og framan af var það nú einkum Framsfl. sem stóð á móti öllum breytingum því að það voru hans hagsmunir að tryggja sem best hagsmuni landsbyggðarinnar meðan Sjálfstfl. var sá flokkur sem hélt fastast í hugmyndir um einmenningskjördæmi. Og ég get nú ekki annað en lýst furðu minni yfir þeim hugmyndum sem enn eru uppi á borði í Sjálfstfl. sem ganga út á það að fækka þingmönnum, fækka ráðherrum, koma á einmenningskjördæmum. Út úr þessu les ég einfaldlega það að menn eru að draga úr lýðræði. Með þessum hugmyndum er verið að færa ákvarðanatökuna á færri hendur og verið að koma á ólýðræðislegra kerfi.
    Við þurfum ekki annað en horfa til þeirra atburða sem gerðust í Kanada nú í vikunni. ( ÓÞÞ: Það voru gleðileg tíðindi sem gerðust í Kanada.) Já, ég get tekið undir það með hv. frammíkallanda að það voru merkileg pólitísk tíðindi, en það sem ég ætlaði að koma að var það að auðvitað sýndu þessi úrslit í Kanada það hvað þetta einmenningskjördæmafyrirkomulag er óréttlátt, enda hurfu menn frá því hér á landi. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst skrýtið að þingmenn skuli ekki skilja það hvers vegna Sjálfstfl. er með þessar hugmyndir því að hann er í svo erfiðri stöðu að hann er að leita allra leiða til að treysta stöðu sína fyrir næstu kosningar. En ég á svo sem ekki von á því að menn verði búnir að koma á einhverjum breytingum fyrir þann tíma því að reynslan sýnir okkur að hugmyndir af þessu tagi þurfa nokkuð langan tíma og menn verða að komast að samkomulagi um það hvernig kerfinu skuli háttað.
    En menn verða líka að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar fylgja breytingu af þessu tagi. Ef við hugsum okkur að það yrði að veruleika að landið yrði eitt kjördæmi --- og menn hafa áhyggjur af því hvort það tækist að tryggja eðlilega dreifingu fólks á framboðslistum að dreifingin væri nokkuð eðlileg miðað við byggð í landinu --- þá sýnist mér ef ég hugsa til þeirra landa þar sem eitt kjördæmi eru við lýði, þ.e. Ísrael og Holland, að það sem hefur gerst þar er að flokkum hefur fjölgað. Menn grípa einfaldlega til þess ráðs að taka sig saman um ákveðin málefni og ákveðnar stefnur, hvort sem það er gamalt fólk eða einhverjir ákveðnir hagsmunahópar, múhameðstrúarmenn eða heittrúarmenn í Ísrael, hvernig sem menn túlka það. Holland er tiltölulega ,,homogen`` samfélag eða einsleitt samfélag, en Ísrael er býsna flókið þannig að menn mættu búast við því hér að kerfi af þessu tagi mundi allavega ýta undir fjölflokkakerfi. Ég held að það megi fullyrða að landið sem eitt kjördæmi mundi ýta undir fjölflokkakerfi, þ.e. fleiri en tvo eða þrjá flokka þó að það sé auðvitað erfitt að fullyrða um það.
    Ég ætla aðeins að koma inn á umræðuna um það að fækka þingmönnum. Ég get ekki annað en varað við því að menn séu að hugsa mikið til þess að fækka þingmönnum og þá er ég ekki að hugsa um það út frá einhverjum kjördæmasjónarmiðum heldur horfi ég fyrst og fremst á starfið hér í þinginu. Mér verður þá ekki síst hugsað til alþjóðastarfsins sem okkur er ætlað að sinna. Ef menn ætla að fækka þingmönnum um 10 eða jafnvel 20, hvað á þá að verða um þetta starf? Ætla menn hreinlega að skera niður starf þingsins í alþjóðastofnunum eða hvernig á að sinna því? Ég fæ ekki betur séð en við sem erum í þessum alþjóðanefndum eigum fullt í fangi með að sinna þeim og fáum ekki einu sinni nægilegt fjármagn til þess. Menn verða að hugsa þessi mál í samhengi hvaða afleiðingar svona breytingartillögur mundu hafa, þ.e. um að fækka þingmönnum.
    Ég vil taka undir það með 1. flm. að verði af þeirri breytingu að gera landið að einu kjördæmi, þá er forsendan auðvitað sú að sveitarstjórnarstigið verður að vera öflugt, þ.e. stjórn mála heima í héraði, hversu stór sem þau nú eru, verður að vera öflug sem mótvægi við landsstjórnina og til þess auðvitað að menn geti tryggt stöðu sína og réttindi.
    Tími minn er að verða búinn, virðulegi forseti. Ég vil að lokum taka undir þá skoðun að það beri að jafna kosningarrétt. Það er einfaldlega lýðræðislegt og mjög óeðlilegt að einhverjir ákveðnir landshlutar hafi margfalt vægi á við aðra þegar kemur að því að kjósa til löggjafarsamkundunnar og eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er þetta fyrst og fremst spurning um réttindi fólks, lýðræðisleg réttindi fólks til að kjósa sér sína fulltrúa og þar eiga menn að sitja við sama borð og rétturinn að vera sem allra jafnastur.