Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:22:48 (822)

[15:22]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst margt til í því sem hv. ræðumaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði áðan. Ég held að það sé mjög óheppileg skipun, sem er hjá okkur, að ráðherrar gegni þingmennsku jafnframt því sem þeir sitja í ráðherrastólum. Ég er alveg eindreginn stuðningsmaður þess að ráðherrar séu valdir úr hópi þingmanna, en ég tel hins vegar að það sé heppilegt fyrirkomulag að þegar þingmenn taka sæti í ríkisstjórn taki varamenn sæti þeirra hér á Alþingi. Það er óþolandi að kannski sjötti partur eða jafnvel meira löggjafarþingsins sé framkvæmdarvaldið. Úr þessu verður ekkert annað en óskapnaður, ekkert annað en óeðlileg tengsl framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þar fyrir utan eru þetta venjulega áhrifamestu þingmennirnir í sínum flokkum sem veljast í ríkisstjórn sem sjálfsagt er og ég tel miklu heppilegra að varamenn taki sæti þeirra. Þar fyrir utan má náttúrlega nefna það að þessir menn gegna ekki þingstörfum nema í skötulíki eftir að þeir eru orðnir ráðherrar. Það er mikið verk að vera ráðherra og vandasamt og það er eðlilegt að menn gefi sig að því, en þá eru þeir ekki hér á Alþingi að vinna sín störf í nefndum eða annars staðar.