Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:50:01 (829)


[15:50]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. ræðumanns. Ég er honum sammála um það að ég held að það sé vanhugsað að ætla að fækka þingmönnum en ég er hins vegar ekki sammála honum í því að kjördæmaskipanin núverandi tryggi samband þings og þjóðar eins og hann orðaði það eða að það sé hin besta skipan til að tryggja samband þings og þjóðar. Ég mundi halda að með því að fækka kjördæmum og jafnvel gera landið að einu kjördæmi þar sem allir landsmenn ættu þátt í að kjósa þingmennina sameiginlega, þá fyndu menn til meira samhengis þar á milli heldur en er núna þar sem menn eru fyrst og fremst að kjósa þingmenn af takmörkuðu svæði og líta þar af leiðandi ekki á alla þingmenn sem sína. Það er auðvitað spurning hvernig menn vilja haga þessu. En ég vildi gjarnan biðja hv. þm. að rökstyðja þessa skoðun sína betur.