Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:55:23 (832)


[15:55]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst hv. ræðumaður tala út frá því sjónarmiði að óbreytt kjördæmaskipan væri viðfangsefnið. Ég tel að sú hugmynd að breyta landinu í eitt kjördæmi sé fædd út af því að menn vilji koma til móts við þær kröfur að laga misvægi atkvæðanna og að menn standi þess vegna einfaldlega frammi fyrir því að fulltrúum af landsbyggðinni verði fækkað á Alþingi. Þess vegna spyr ég hv. þm.: Ef hann vill gera þetta með óbreyttri kjördæmaskipan, með hvaða hætti ætlar hann þá að tryggja þetta samband þings og þjóðar? Því að það er alveg á hreinu miðað við úrslit nokkurra síðustu kosninga t.d. að ekki yrði um að ræða neinn fulltrúa fyrir Alþfl. á Austurlandi svo að ég taki dæmi miðað við það að breyta ekki kjördæmaskipaninni en fækka þingfulltrúum á landsbyggðinni.