Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:56:24 (833)


[15:56]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kosningakerfi sem við búum við var lögfest 1983 og það tók fyrst gildi í kosningum 1987 þannig að það hefur verið kosið eftir því tvisvar sinnum. Innifalin í því er ákveðin sjálfvirkni til breytinga í jöfnunarátt sem ég tel afar skynsamlegt. En það sem ég vil leggja áherslu á er það að hvert kosningakerfi þarf tíma til þess að öðlast sess í hefð og sögu. Það er afar óskynsamlegt að vera að hringla mikið með kosningakerfið. Það tók líka langan tíma fyrir fólk að aðlagast og læra á kerfi sem tekið var í gildi 1959. Það voru ekki allir sáttir við það strax en þekktu það síðar meir og kunnu flestir vel að meta, enda er kerfið sem við búum við núna ekki ólíkt því á margan hátt í grunnhugmyndinni. En hvernig ég vil frekar leiðrétta þetta misvægi sem er að koma upp og sem hefur verið vaxandi núna síðustu árin milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ég vil gera það á grundvelli þess að styrkja búsetuna á landsbyggðinni. Ég vil gera það með þeim hætti að snúa þeirri búsetuþróun við að fólk þurfi að flýja af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið. Ég vil ekki sætta mig við að það þurfi að vera að breyta um kosningakerfi af því að við sjáum fram á það að fólkið ætlar að halda áfram að flýja, af því að við stöndum okkur ekki nógu vel í því að tryggja mannréttindi með því að tryggja búsetu fólksins þar sem það á heima. Þar reynir á okkur í staðinn fyrir að vera stöðugt að breyta kerfunum.