Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:18:23 (842)


[16:18]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hélt ekki að hv. þm. Finnur Ingólfsson mundi fara að vekja athygli á því hvernig tillagan er orðuð því hún er orðuð alveg afskaplega loðið og það verður á engan hátt skilið af orðalagi tillögunnar að hv. flm. séu fylgjandi því að gera landið að einu kjördæmi. Þeir eru ekki einu sinni að tala um að skoða kosti og galla þess þannig að þess vegna er ég að segja það að tillagan sé sýndartillaga til þess að drepa málinu á dreif og skoða einn þann kost sem ég tel vera versta kostinn í stað þess að fara í gagngera endurskoðun og leita að leið sem allir geta sætt sig við og hafa þá ekki bara eina tillögu undir heldur fleiri tillögur. ( BBj: Það á bara að skoða kosti þess, ekki galla.) Greinargerðin er ekki skýrari en tillagan. Og seinast í greinargerðinni segir, með leyfi forseta: ,,Þá væri eðlilegt að einnig yrði skoðaður sá möguleiki að kjósa eftir ,,þýska kerfinu``, þ.e. blandaðri aðferð þar sem bæði er um að ræða kjör af landslista og í kjördæmum.`` Þetta er náttúrlega engan veginn í samræmi við texta tillögunnar. Þar er bara talað um að skoða kosti einnar tegundar af kjördæmabreytingum. Og hvað svo sem líður breytingu sem gerð var 1983, þá veit hv. þm. Finnur Ingólfsson það og reyndar allir aðrir hér inni að Framsfl. hefur aldrei fallist á breytingar á kjördæmaskipan nema tilneyddur. Það segir sagan okkur og það eru hvorki útúrsnúningar né verið að detta niður á eitthvert lélegt plan að minna á þá staðreynd. Við vitum þetta öll.