Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:34:58 (849)


[16:34]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð nú að virða hv. 6. þm. Norðurl. e. það til vorkunnar að hann hafi ekki lesið nákvæmlega það sem afgreitt var á landsfundi Sjálfstfl. og, með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa hér þá málsgrein sem að þessu lýtur en hún hljóðar svo:
    ,,Landsfundurinn álítur rétt að Sjálfstfl. gangi til viðræðna við aðra flokka um breytingu á kosningalöggjöfinni á þeim forsendum að fulltrúar flokksins séu óbundnir af einni leið frekar en annarri að því markmiði sem að er stefnt, jöfnun atkvæðisréttar, að þingstyrkur flokka sé í samræmi við atkvæðamagn, fækkun þingmanna og að kjósendum verði tryggð sem mest áhrif á það hverjir veljist til þingsetu. Við meðferð málsins verði m.a. athugað hvaða hluta kosningalaganna beri að binda í stjórnarskrá.``
    Það kemur sem sagt fram að þó það sé skoðun landsfundar Sjálfstfl. að það beri að jafna atkvæðisréttinn eins og hér segir þá eru fulltrúar flokksins óbundnir af einni leið fremur en annarri. Það er auðvitað ljóst að ef valin væru einmenningskjördæmi þá mundi það ekki geta leitt til þess að fullur jöfnuður næðist milli flokka þrátt fyrir það að landslisti væri jafnframt tekinn upp.