Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 16:55:58 (859)


[16:55]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Hér hafa nú orðið allfróðlegar umræður um þetta mikilsverða mál í dag. Ég verð að játa það þó ég sé mikill vinur lýðræðisins að ég sé mjög ákveðna kosti við það að gera landið að einmenningskjördæmum. Ég sé að vísu verulega annmarka á í Reykjavík, en annars staðar held ég að það sé mögulegt og að það hafi mjög marga kosti. Það hefur reyndar þá ókosti að sú skipan er andvíg smáflokkakerfi. Hinir smærri flokkar eiga það á hættu að verða undir en þetta getur skapað vissa festu í stjórnarfari. Það er alls ekki að einmenningskjördæmi þurfi að vera eitthvað hliðholl Sjálfstfl. Það er síður en svo. Við þurfum ekki nema líta til Kanada. Og ef gengið væri til kosninga hér í einmenningskjördæmum þá á ég von á því að þingmenn Sjálfstfl. mundu falla eins og flugur eins og bræður þeirra í Kanada í gær og fyrradag. ( Gripið fram í: Tveir kæmust að.) Kannski kæmust tveir að en það er ekki víst að þeir yrðu í sama flokki.
    Það eru hins vegar ýmsir gallar á einmenningskjördæmakerfinu. Það er ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að vera minnihlutamaður í einmenningskjördæmi og það er ósköp þægilegt að eiga aðgang að þingmanninum. Núverandi kjördæmaskipun er að mörgu leyti brúkleg. Ég held að við eigum að halda í hana því hún er lýðræðisleg. Ég vil taka fram sem ég hef reyndar gert áður í þessum umræðum að seinasti maður eða fimmti maður í fámennu kjördæmunum er raunverulega landskjörinn. Hann er ekki kosinn af fólkinu í sínu kjördæmi, það eru atkvæðið annars staðar greidd sem ráða því hvort hann verður þingmaður eða ekki.
    Ég viðurkenni það alveg að þessi skipan með flakkarann er bastarður. Hún var sett til þess að reyna að jafna enn frekar atkvæðavægi milli flokka en það væri hægt að ná því með því með því að kjördæmabinda bastarðinn, þ.e. flakkarann, hér í stóru kjördæmunum á Faxaflóasvæðinu. Þessi flókna reikniregla sem við búum við var sett af lýðræðisást og góðum hug. Það er algjör misskilningur ef menn halda að ráðuneytisstjórinn í viðskrn. sé eini maðurinn sem skilur hana. Menn þurfa hins vegar kannski að fletta upp og það eru miklu fleiri menn sem geta reiknað þetta heldur en hann. Enda teldi ég það mjög óheppilegt ef svo væri að hann réði því og hefði úrslitaáhrif um það hverjir yrðu þingmenn. Ég held að við eigum að halda

í núverandi kjördæmaskipan. En til þess að jafna vægi atkvæða ef menn telja að það sé óþolandi að hafa ekki nema 70% ríkisstjórnarinnar úr þessum tveimur kjördæmum hér á suðvesturhorninu þá væri út af fyrir sig kannski einfaldasta leiðin að fjölga þingmönnum þar. Ég er hins vegar andvígur því að fækka þingmönnum í hinum kjördæmunum vegna þess að ég þekki það af eigin reynslu að þeir hafa alveg nóg að gera. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé grundvöllur fyrir því eða vilji hér á Alþingi að fjölga þingmönnum Reykjavíkur og Reykjaness þannig að fullur jöfnuður næðist.
    Það væri hægt að hugsa sér fyrir utan það að kjördæmabinda flakkarann að færa landskjörnu þingmennina, þ.e. 5. þingmann í litlu kjördæmunum, hingað á þetta svæði og gera þá landskjörna þingmenn á tölu og þá mundu veljast frambjóðendur úr Reykjavík og af Reykjanesi. Þetta mundi að vísu hafa það í för með sér að verulegur meiri hluti þingmanna sem eru í framboði, yrðu þingmenn Reykjaness og Reykjavíkur.
    Ég vil viðhalda ákveðnu misvægi atkvæða og ég teldi það mjög óheppilegt ef yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna væri bara út tveimur kjördæmum. En ég hef enga fordóma hins vegar gagnvart hv. þm. af Reykjanesi eða úr Reykjavík. Ég held að þeir séu ekki neitt sérstaklega fjandsamlegir dreifbýli. Og þeir sem láta ógætileg og kuldaleg orð falla í garð dreifbýlisins úr þingmannahópi þessara tveggja kjördæma gera það vil ég vona fremur af ókunnugleika heldur en ásetningi. Og ég þekki engan þingmann dreifbýlisins sem er andvígur þessu suðvesturhorni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að auka persónukjör. Og til þess að auka persónukjör, auka valfrelsi kjósandans í kjörklefanum þannig að fólkið í landinu raunverulega ráði því hverjir sitja hér á Alþingi, það sé finnska aðferðin. Og finnska aðferðin er þannig að það eru fleirmenningskjördæmi, bornir fram raðaðir listar en kjósandi er skyldur að merkja við þann frambjóðanda sem hann vill helst sjá á þinginu. Þar með fær hann að ráða því hver er hans fulltrúi. Þannig raðast listarnir upp með eðlilegum hætti og með raunverulegan styrk á bak við sig. Þetta gerir þingmenn frjálsari, ég held að þetta væri mjög til bóta og gerði þingmennina sjálfstæðari. Þetta er líka ákaflega hagstætt konum og það sannast ef maður þekkir eitthvað til í þjóðþingum hér í kringum okkur þá er hvergi neitt viðlíka mikið af hæfum konum í pólitík eins og í finnskri pólitík. Síðan held ég að það sé mjög mikilvægt líka að hækka þröskuldana þannig að flokkur þurfi að ná ákveðnu atkvæðamagni til þess að eiga kost á því að koma að þingmanni.
    Mér finnst líka vanta inn í þessa umræðu að við verðum að taka upp þjóðaratkvæði í miklu ríkari mæli heldur en við höfum gert. Ég tel sem sagt að við eigum að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin mikilsverðustu mál. Það var okkur til mikils vansa að efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. um inngönguna í EES. Ég er sannfærður um að allir hefðu sætt sig betur við útslit þess máls ef þjóðaratkvæðagreiðsla hefið verið á undan gengin.
    Ég ætla, herra forseti, að ljúka máli mínu. Mín hugsun er sú að heppilegast sé að ef menn á annað borð fara að breyta kosningalögum að halda sig við núverandi skipan en taka upp finnsku leiðina, að kjósendur velji sjálfir frambjóðendur í kjörklefa.