Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:13:32 (861)


[17:13]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna þess að hv. þm. vísaði sérstaklega til Ísraels þá vil ég láta þess getið mönnum til fróðleiks að árið 1988 þegar fóru fram þingkosningar í Ísrael, þá voru 27 flokkar í framboði, 15 flokkar fengu menn kjörna á þing, en ef það hefði verið 5% gólf í kosningareglunum í Ísrael, þá hefðu tveir flokkar fengið menn kjörna, þ.e. stóru flokkarnir, Likud-flokkur sem fékk 31% atkvæða og Verkamannaflokkurinn sem fékk 30% atkvæða. En það er ekki þannig í Ísrael þannig að flokkarnir voru sem sagt 15 á þingi og stóru flokkarnir hafa orðið að semja við smáflokkana og það er rétt sem hv. þm. sagði að það hefur leitt til þess að þessir smáflokkar eða flokkabrot hafa fengið óeðlilega mikil áhrif á landsstjórnina.
    Ég vil aðeins láta þess getið við hv. þm. þegar hann er að fagna kosningaúrslitum í Kanada að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og hef átt orðræður um þetta mál við framsóknarmenn, sérstaklega í blöðum því að áður fyrr í Tímanum var því ansi oft hampað að hinir og þessir menn út um heiminn væru framsóknarmenn ef þeim vegnaði vel á alþjóðavettvangi og það var meira að segja svo komið einu sinni að það mætti halda að Jóhannes Páll páfi annar væri framsóknarmaður af skrifum Tímans, ( ÓÞÞ: Er það dregið í efa?) en mér finnst eðlilegt að menn haldi sig nú við heimaslóðir þegar þeir fagna kosningaúrslitum og líti í eigin barm en séu ekki að fagna kosningaúrslitum í útlöndum, sérstaklega að ástæðulausu eins og það er fyrir framsóknarmenn í þessu tilviki í Kanada.