Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:39:06 (874)


[17:39]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég mun reyna að hafa þann ófrið í frammi sem nauðsynlegur er til að hafa hér eftirtekt. En það sem ég vildi vekja athygli á og kom fram í mál flm. er fyrst og fremst eitt atriði.
    Hann talar um það annars vegar sem gefna forsendu að hafa jöfnuð á milli flokka og hins vegar að hafa gólf. Þetta tvennt gengur aldrei upp. Annaðhvort hefur hann jöfnuð á milli flokka eða gólf. Hafi hann hlustað á það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um úrslitin í Ísrael þá blasir það við að það var ekki lýðræðisleg niðurstaða þó að frambjóðendurnir yrðu svona margir í upphafi eða flokkarnir sem buðu fram. Ég held þess vegna að menn verði að átta sig á því að þetta tvennt fer aldrei saman. Ef það er ekkert gólf þá er niðurstaðan sú að að verði jöfnuður á milli flokka. Ef það er gólf, þá er það úti og stærstu flokkarnir fá út úr niðurstöðunni meira en þeir eiga samkvæmt jöfnuði á milli flokka.