Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 18:10:08 (890)


[18:10]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að fagna því að hv. 5. þm. Vestf. telur í seinni ræðu sinni að þessi umræða í dag geti leitt af sér eitthvert gagn. Ég er honum alveg sammála um það að við þurfum miklu róttækari breytingar varðandi dreifingu á valdi og verkefnum heldur en menn eru að tala um núna í þeirri aðgerð sem á að fara fram og kosið er um 20. nóv. Ég hef hins vegar ekki viljað beita mér í þeirri umræðu af neinni hörku einfaldlega vegna þess að ég tel mig vera einn af ábyrgðarmönnum þeirra kosninga ásamt með hv. þm. sem síðast talaði. Ég held að ég muni það rétt að við höfum báðir samþykkt þau lög sem þarna er unnið eftir. Hv. þm. hristir höfuðið en ef ég man rétt þá skrifaði hann undir það nál. sem þar er unnið eftir án fyrirvara. Ég held að það jákvæða sem út úr því kemur sé það að til þess að framkvæma þann sem ég held að sé orðinn meirihlutavilji Alþingis, að færa verkefni og ábyrgð út til byggðanna, þá leiði þessi umræða í ljós að það þurfi miklu róttækari aðgerðir. Ég geri mér vonir um að í þá vinnu verði farið í framhaldinu. Þessi umræða er komin af stað út um allt land og viðhorf sveitarstjórnarmanna er orðið allt annað núna en það var bara fyrir nokkrum vikum síðan. Þannig að sú umræða verður ekki stöðvuð.