Húsnæðismál Stjórnarráðs Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:15:00 (892)

[15:15]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú saga er sögð frá dögum ríkisstjórnar Tryggva Þórhallssonar að þáverandi fjármálaráðherra sá út um glugga gamla Stjórnarráðshússins við Lækjartorg að byggingarframkvæmdir voru hafnar efst á Arnarhóli. Hann spurði starfsmann ráðuneytisins hver væri farinn að byggja þarna og fékk það svar að það væri ríkisstjórnin. Dómsmálaráðherrann Jónas Jónsson hefði ákveðið að byggja hús yfir ráðuneytin. Honum hafði bara láðst að segja fjármálaráðherranum frá því hvað þá að leita eftir nauðsynlegum heimildum á fjárlögum.
    Slíkir stjórnarhættir tíðkast ekki nú á dögum þó ýmsu sé ábótavant. En reyndar hefur ekki verið byggt yfir ráðuneytin sérstaklega frá dögum Jónasar, heldur eru þau meira og minna í leiguhúsnæði eða öðru húsnæði í eigu ríkisins sem ýmist hefur verið keypt eða var áður til annarra nota.
    Það hefur komið fram að mjög þröngt er um sum ráðuneytin. Utanrrn. verður brátt að víkja úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu og er þá horft til hins myndarlega húss Byggðastofnunar fyrir það, en þar er landbrn. fyrir í fleti.
    Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 kemur fram í 6. gr. að leitað er heimilda til að kaupa húseignir og lóðir í nágrenni Arnarhváls í Reykjavík fyrir Stjórnarráðið og að til þess verði tekin nauðsynleg lán. Þá er einnig leitað eftir heimild til að kaupa húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta og að til þess verði einnig tekin nauðsynleg lán. Út úr þessum beiðnum les ég að ýmislegt standi til varðandi húsnæðismál ráðuneytanna sem auðvitað eru ekkert einkamál þessarar ríkisstjórnar. Því legg ég eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh. á þskj. 58:
    ,,Hvaða áform eru uppi um húsnæðismál Stjórnarráðsins, sbr. 6. gr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1994 (liður 4.5) varðandi
    a. nýbyggingar,
    b leiguhúsnæði,
    c. breytta nýtingu á núverandi húsakosti ríkisins?