Afmæli heimastjórnar og fullveldis Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:22:05 (896)

[15:22]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Íslendingar munu halda upp á hálfrar aldar afmæli íslenska lýðveldisins hinn 17. júní á næsta ári og er undirbúningur afmælisins hafinn þótt seint sé. Það hefur hins vegar farið minna fyrir umræðum og undirbúningi fyrir önnur afmæli sem fram undan eru og einnig tengjast stórmerkum áföngum í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það er að vísu alltaf spurning hvort og hversu mikið eigi að gera úr sögulegum viðburðum fortíðarinnar en ef við viljum að Íslendingar þekki sögu sína og viti hvað forfeður okkar og formæður lögðu af mörkum til að skapa okkur velsæld, eigum við að nota tækifæri eins og afmæli til að fræða, rannsaka og meta hvort gengið hafi verið til góðs.
    Það má ljóst vera að umræður um sjálfstæði, þjóðríki og framtíð þess, stjórnarhætti og stjórnskipan, eru í mikilli deiglu vegna þeirra milliríkjasamninga sem meiri hluti Alþingis hefur ákveðið að gerast aðili að, vegna samrunaþróunarinnar í Evrópu og annarra breytinga sem fram undan kunna að vera. Lítilli þjóð er ekki síst nauðsynlegt að átta sig á stöðu sinni og ræða hvert halda skuli.
    Hinn 1. des. nk. verða 75 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Að mínum dómi var sambandslagasáttmálinn sem samþykktur var 1918 stærsti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og margt í þeim sáttmála og hugmyndum kringum hann sem vert er að velta fyrir sér, svo sem hugmyndin um ævarandi hlutleysi Íslands og ýmsar pólitískar hugmyndir sem hann byggðist á.
    Hinn 1. febr. nk. verða 90 ár liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og fengu þar með fyrsta íslenska ráðherrann og Stjórnarráð Íslands var stofnað. Með heimastjórninni tóku Íslendingar í eigin hendur stjórn flestra þeirra mála sem Danir höfðu farið með. Framkvæmdarvaldið kom inn í landið enda hófst þá mikið framfaraskeið. Saga Stjórnarráðsins hefur verið skráð en sagnfræðileg úttekt á fyrsta ráðherranum og gjörðum hans er enn óunnin. Það er því margs að minnast og margt að gera ef vilji er til þess að halda sögunni til haga og læra af henni.
    Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. í tilefni þessara afmæla sem fram undan eru:
    ,,Hvernig hyggjast stjórnvöld, skólakerfið og ríkisfjölmiðlar minnast þess að
    a. 1. desember nk. verða 75 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki,
    b. 1. febrúar nk. verða 90 ár liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Stjórnarráð Íslands var stofnað?``