Afmæli heimastjórnar og fullveldis Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:29:05 (899)


[15:29]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að það yrði fátt um svör því það hefur auðvitað ekki farið fram hjá mér frekar en öðrum að það hefur ákaflega lítilli athygli verið beint að þessum afmælum sem fram undan eru og mér þykir það mjög slæmt. En þó stuttur tími sé til stefnu þá vona ég að þessi umræða verði til þess að vekja athygli á þessum afmælum og að t.d. skólar og ríkisfjölmiðlar taki aðeins við sér og átti sig á því að það eru þarna stór tímamót fram undan. Það kemur mér hins vegar ekki á óvart að Reykjavíkurborg skuli hafa opnað augu sín fyrir því hvað er fram undan á næsta ári því á vegum hennar eru starfandi sagnfræðingar og fornleifafræðingar og ýmsir fræðimenn sem sinna þessum málum ágæta vel.
    Ég vil taka undir það að framhaldssaga Stjórnarráðsins verði skráð því í þeim bókum sem ritaðar voru af Agnari Klemenz Jónssyni er að finna margar og merkar upplýsingar þó það sé ekki um mjög fræðilega úttekt að ræða heldur er miklu frekar um uppflettirit en samt mikill og góður fróðleikur manns sem hafði mikla reynslu af íslenskri stjórnsýslu.
    En ég vona svo sannarlega að menn ranki við sér og noti þann tíma sem til stefnu er til þess að átta sig á því hvað hægt er að gera. Ég minni enn á það sem ég nefndi í inngangi að fyrirspurninni að það er svo sannarlega tími til kominn að menn fari að skoða þann merka mann Hannes Hafstein upp á nýtt og hugmyndir hans og gjörðir því hann var að mínum dómi afar merkur stjórnmálamaður.