Framlög til vísindarannsókna

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:30:35 (900)

[15:30]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég á mörg erindi í þennan ræðustól í dag. Ég hef fsp. til hæstv. menntmrh. um framlög til vísindarannsókna.
    Eins og menn minnast eflaust þá gaf ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu hinn 23. nóv. 1992 vegna aðgerða í efnahagsmálum þar sem fram kom að ríkisstjórnin ætlaði að leggja sérstaka áherslu á að efla rannsóknir og þróun. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 voru tillögur um það að hluta af sölu ríkiseigna yrði varið til þess að efla vísindi og rannsóknir. Á bls. 244 í frv. frá 1993 segir:
    ,,Gangi áformin eftir [þ.e. áformin um sölu ríkiseigna] er ákveðið að 1 / 5 hluti greidds andvirðis þeirra renni til þess að örva rannsóknir og þróunarstarf.``
    Það var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að ríkiseignir yrðu seldar fyrir 1,5 milljarða kr. en eins og við höfum öll séð og heyrt þá hafa þau áform ekki gengið eftir heldur stefnir í að salan verði fyrir u.þ.b. 100 millj. kr. Það má því ljóst vera að þessi áform um að efla vísindi og rannsóknir og þróunarstarf hafa

ekki gengið eftir en mig fýsir að vita hversu miklu fé hefur verið varið til þessara rannsókna af þeim peningum sem komið hafa inn fyrir sölu ríkiseigna. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
  ,,1. Hversu miklu af því fé, sem komið hefur í ríkissjóð af sölu ríkiseigna á árinu 1993, hefur verið varið til rannsókna og þróunarstarfs, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóv. 1992 og fjárlög ársins 1993?
    2. Hvaða verkefni hafa verið styrkt með tekjum af sölu ríkiseigna?``