Átak gegn einelti

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:47:11 (906)


[15:47]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég er sammála því sem fram kom í hans máli, að ýmislegt sé hægt að gera í þessum málum. Jafnframt var mér kunnugt um þær tilraunir sem gerðar hafa verið, einkum í Reykjanesumdæmi. Það eru hins vegar mikil vonbrigði að þessi starfshópur sem átti að setja á laggirnar, skuli ekki enn vera kominn í gang. Það er liðið of langt til þess að ég geti talið að hægt sé að réttlæta að hópurinn sé ekki farinn að starfa og mér fannst það ekki alveg koma nógu skýrt fram í máli hæstv. ráðherra, hvort þessi hópur á að taka til starfa. Ég held að það sem hæstv. ráðherra nefnir sé út af fyrir sig alveg rétt, hvernig þarf að standa að þessu, að flétta þetta inn í skólastarf. En ég bendi á það að á sama tíma er verið að skera niður fjármagn og tíma skóla eða réttara sagt niðurskurður frá síðasta ári hefur ekki verið bættur. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og einnig hvernig umhverfi skóla er hannað og hvaða möguleikar eru á gæslu í frímínútum. Þetta eru atriði sem snúa beint að ráðuneytinu og aðstæðum hvers skóla fyrir sig.
    Það eru einkum atriði af þessu tagi, sem ég held að réttlæti það að slíkur starfshópur sé til, til þess að halda yfirvöldum og skólum við efnið og samhæfa og gefa sem flestum börnum og unglingum kost á því að vera í skóla án eineltis og annars ofbeldis. Ég er alveg sannfærð um að þetta er hægt að gera.