Málefni Blindrabókasafns

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:54:01 (909)


[16:00]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Upphaf þessa máls má rekja til þess að stjórn Blindrabókasafnsins taldi á fundum sínum þann 12. mars og 19. nóv. 1992 að stækkunarmöguleikar safnsins væru ekki fyrir hendi í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 í Reykjavík og hóf þess vegna leit að öðru húsnæði. Menntmrn. fól Hagsýslu ríkisins með bréfi, dags. 11. júní nú á þessu ári, athugun á húsnæðismálum Blindrabókasafnsins. Óskað var eftir að gerð yrði húsrýmisáætlun fyrir safnið, athugað yrði miðað við húsrýmisáætlunina hvort möguleikar væru fyrir hendi að safnið gæti áfram starfað á núverandi stað og kannað yrði hvernig starfsemi safnsins gæti fallið inn í húsnæði á jarðhæð hússins að Digranesvegi 5 í Kópavogi, en það hús er í eigu ríkissjóðs. Hagsýsla ríkisins skilaði skýrslu sinni 25. júní sl. og á stjórnarfundi Blindrabókasafnsins 5. júlí samþykkti meiri hluti stjórnarinnar að safnið yrði flutt.
    Í framhaldi af samtali mínu við formann Öryrkjabandalagsins boðaði ég til fundar með honum fulltrúa frá Blindrafélaginu og forstöðumanni og stjórnarformanni Blindrabókasafnsins til þess að ræða stöðu og hugsanlegar aðrar lausnir á húsnæðismálum safnsins en þá að flytja að Digranesvegi 5. Í framhaldi af þessum fundi sem haldinn var í ráðuneytinu þann 30. sept. sendi ég erindi Öryrkjabandalagsins, erindi sem dags. var þennan sama dag með tillögum að lausnum á húsnæðisvanda safnsins, til stjórnar Blindrabókasafnsins og óskaði eftir að stjórnin tæki málið til nýrrar yfirvegunar á grundvelli nýs tilboðs frá Blindrafélaginu.
    Stjórn Blindrabókasafnsins hélt fund daginn eftir, þann 1. okt. Niðurstaða stjórnarfundarins var sú að hafnað var tillögum Öryrkjabandalagsins og Blindrafélagsins og ítekuð fyrri samþykkt um að flytja safnið að Digranesvegi 5.
    Aðilum þessa máls er það vel kunnugt að ráðuneytið mun ekki grípa fram fyrir hendur stjórnar Blindrabókasafnsins í þessu máli. Það var þeim kunnugt þegar í byrjun október en þessa ákvörðun hef ég staðfest með bréfi.
    Ég vil svo aðeins í tilefni af því að hv. fyrirspyrjandi sagði að misbrestur hefði orðið á samstarfi við þá sem þarna eiga hlut að máli. Það má vel vera að meira hefði mátt tala saman, ég skal ekkert fullyrða um það. En ég bendi á að Blindrafélagið, sem hefur lagst gegn þessum flutningi, á fulltrúa í stjórn Blindrabókasafnsins þannig að Blindrafélagið hefur fylgst með þessu máli allan tímann. Ég bæti því líka við að mér virðist ríkja sá misskilningur að þetta safn þjóni eingöngu blindum. En það er ekki svo. Það þjónar miklu fleirum og í húsi Blindrafélagsins í Hamrahlíð búa innan við 20 lánþegar safnsins og útlán þess byggjast að langestu leyti á sendingum til lánþega og það hefur verið tekið upp sérstakt tölvukerfi í því sambandi.
    Árið 1992 voru lánþegar hljóðbóka í Blindrabókasafninu 1.230 einstaklingar og 136 stofnanir. Lánþegar blindraletursbóka eru hins vegar 13, en félagar í Blindrafélaginu munu vera um eða yfir 200.
    Þetta er svar mitt við fyrirspurn hv. þm.