Húsnæðiskannanir sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:11:24 (914)

[16:11]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Ef ég hef skilið hana rétt, þá er mikið um það að menn vinni út frá biðlistum sveitarfélaganna. Eins og ég þekki það hér í Reykjavík þá er reyndar ekki um biðlista að ræða heldur miða menn við það hversu margir sækja um á hverju ári og fólk sækir um aftur og aftur þangað til röðin kemur að því eða það hreinlega gefast upp. Hér í Reykjavík hafa menn stuðst við þessa biðlista eða þessa lista umsækjenda og greint út frá þeim hverjir sækja um, hver fjölskyldustærð er og hvernig aðstæður eru.
    En það er nú eiginlega ekki þetta sem ætlunin var að gera með þessum lagabreytingum, heldur að

menn gerðu almennilegar kannanir með úrtaki og könnuðu þar með vilja fólks; hvað er það sem fólk vill, hver er þörfin fyrir félagslegt húsnæði og hvers konar húsnæði o.s.frv., og menn reyndu að horfa fram í tímann. Vegna þess að hópar umsækjenda geta verið að sækja um, eins og hérna í Reykjavík, á fleiri en einum stað. Menn geta sótt um hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur, menn geta sótt um hjá Búseta og jafnvel ef um fatlaða einstaklinga er að ræða geta menn verið að sækja um á þriðja staðnum og það er vitað að einhver hluti af þessu er sama fólkið sem kemst svo kannski annars staðar að.
    En þetta var ekki tilgangurinn þannig að ég vil gagnrýna það ef menn byggja fyrst og fremst á þessum umsóknum, því það gefur ekki alla myndina. Síðan kemur það greinilega í hlut Húsnæðisstofnunar að vinna úr þessu og leggja eitthvert mat á þessar upplýsingar sem koma frá sveitarfélögunum. Ég held að það þurfi að skoða þetta svolítið nánar, hvernig að þessu er staðið og hvort þessi aðferð gefur okkur nægilega skýra mynd af hinni raunverulegu þörf og því hvort fjármagnið nýtist eins og til er ætlast, virðulegi forseti.