Barnaverndarnefndir í fámennum sveitarfélögum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:24:11 (920)

[16:23]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :

    Virðulegi forseti. Að vissu leyti er þessi fsp. óþörf þar sem upplýsingarnar eru þegar komnar fram í næstu fsp. á undan en ég vil, með leyfi hæstv. forseta, þó beina henni til hæstv. félmrh.:
    ,,Hve mörg sveitarfélög með 500 íbúa eða færri eru með sérstaka barnaverndarnefnd? Hefur verið þrýst á þessi sveitarfélög að starfrækja barnaverndarnefndir í samvinnu við önnur sveitarfélög, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992?``
    Ástæðan fyrir því að ég segi að þessi fsp. sé óþörf er að mér sýnist að það hefur þegar komið fram að öll sveitarfélög með 500 íbúa eða færri séu með sérstaka barnaverndarnefnd. Ég skildi það svo. Það finnst mér út af fyrir sig áhyggjuefni. Ég er ekki að gera lítið úr starfi þess fólks sem er í fámennum sveitarfélögum að vinna að þessum málum eftir mætti en návígið er mikið í slíkum sveitarfélögum. Það er afskaplega hæpið að það fólk sem er í barnaverndarnefndum í fámennum sveitarfélögum hafi einhverja sérstaka fagþekkingu í þessum málum. Það hlýtur að vera undir hælinn lagt. Og spurningin er að hvaða leyti þetta fólk á yfir höfuð kost á faglegri þjónustu.
    Mig langar að vitna til þessarar skýrslu frá Hagsýslu ríkisins um málefni barna og unglinga sem ég gat um í næstu fsp. á undan en þar kemur fram á bls. 28 að það séu lagalegar forsendur fyrir hendi til þess að barnaverndarnefndir sameinist og bent er á að sveitarfélög hafi raunar sameinast um þjónustu á fjölmörgum sviðum, þannig að það sé eðlilegt að á þessu sviði verði það einnig hægt.
    Það er síðan sagt, með leyfi forseta: ,,Ríkið getur gengið lengra í að skapa sveitarfélögum hagstæð skilyrði, t.d. með því að fela þeim önnur verkefni sem styrkt geta grundvöllinn fyrir þjónustu við börn og unglinga. Að auki þarf ríkið að bjóða upp á markvissa aðstoð í erfiðari og sérhæfðari málum.`` Að þessu síðastnefnda komum við raunar á eftir í fleiri fsp.
    Ég vil síðan geta þess að það er bein tillaga, tillaga nr. 4.1.2 í þessari skýrslu, um að félmrn. hafi frumkvæði að því að sveitarfélög sameinist um þjónustu við börn og unglinga og þar sýnist mér greinilega átt við að frumkvæðið sé bara meira en ákveðin tilmæli.