Fagleg ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:28:56 (922)

[16:28]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 150 ber ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um faglega ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir. Fsp. er í fjórum liðum og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hve margar barnaverndarnefndir hafa sérmenntað starfsfólk í þjónustu sinni, sbr. 7. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992?
    2. Hve margar barnaverndarnefndir hafa aðgang að þjónustu sérmenntaðs starfsfólks í samstarfi fleiri en eins sveitarfélags?
    3. Hve margar barnaverndarnefndir hafa ekki aðgang að þjónustu sérmenntaðs starfsfólks?
    4. Hvers konar ráðgjöf býður félagsmálaráðuneytið barnaverndarnefndum sveitarfélaga, sbr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna?``
    Mig langar til glöggvunar að vitna í, með leyfi forseta, þessar greinar sem ég vitna til í 1. og 4.

lið, en það stendur í 7. gr. barnaverndarlaga:
    ,,Barnaverndarnefnd skal að fenginni heimild hlutaðeigandi sveitarstjórna ráða sérhæft starfslið. Skal það miðað við að hægt sé að veita foreldrum, forráðamönnum barna og stofnunum, er annast uppeldi, viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal miðað við að nægilegir möguleikar séu til félagslegra og sálfræðilegra rannsókna á börnum er með þurfa vegna könnunar og meðferða barnaverndarmála.
    Heimilt er barnaverndarnefnd að semja við stofnanir, svo sem félagsmálastofnanir, fræðsluskrifstofur, svæðisstjórnir eða heilsugæslustöðvar, um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu, svo og að leita til sérfræðinga í einstökum málum.
    Barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka og skal hún setja um það reglur sem héraðsnefnd eða sveitarstjórn staðfestir. Ákvörðun um þvingunaraðgerð getur barnaverndarnefnd þó ein tekið, sbr. þó 47. gr.``
    Svo sem sjá má þá er ekkert smáræði sem lagt er á þetta sérmenntaða starfsfólk og því hlýtur að vera mikill munur á barnaverndarmálum þar sem slík þjónusta er fáanleg og þar sem slík þjónusta er ekki fáanleg. Mér finnst því full ástæða til þess að vita hversu stór hluti barnaverndarnefnda hefur aðgang að þessari þjónustu því hún er sannarlega ekki lítil ef hún er veitt samkvæmt lagabókstaf.
    Í 3. gr. sem er alllöng eru einnig ákveðnar skyldur lagðar á herðar ráðuneytis og að því mun ég víkja nánar e.t.v. í næstu fsp.