Fagleg ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:32:10 (923)


[16:32]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ráðuneytinu telst til að 19 sveitarfélög hafi nú um stundir á að skipa starfsmönnum einum eða fleiri á vegum barnaverndarnefnda. Ráðuneytið hefur engar tæmandi upplýsingar um menntun þeirra starfsmanna og get ég því ekki fullyrt hvort um er að ræða sérmenntaða starfsmenn. Þær upplýsingar sem ráðuneytið hefur um þetta atriði benda til að menntun og reynsla meðal starfsmanna barnaverndarnefnda sé afar mismunandi þegar á allt er litið. Má þar nefna menntun svo sem uppeldisfræði, kennaramenntun, félagsþjálfun, mannfræði, guðfræði o.s.frv. Starfsmenn barnaverndarnefnda í fjölmennustu sveitarfélögum landsins hafa flestir menntun á sviði félagsráðgjafar eða eru sálfræðingar. Þessar starfsstéttir eru langfjölmennastar.
    Varðandi 2. og 3. tölulið fsp. er því til að svara að félmrn. er ekki kunnugt um að nokkurt sveitarfélag hafi sem stendur sameiginlegt mannahald við annað sveitarfélag í barnavernd. Í tveimur sveitarfélögum á Suðurnesjum hefur þessi háttur þó verið hafður á um skeið. Fyrir utan þau sveitarfélög sem hafa fasta starfsmenn sem vinna að vernd barna og ungmenna eru a.m.k. 2--3 sveitarfélög sem gert hafa samning við fræðsluskrifstofur um að sálfræðingur starfi að tilteknum verkefnum í fræðsluumdæminu og að hluta fyrir félmrn. og barnaverndarnefnd. Þessi tilhögun hefur eftir því sem ráðuneytinu er um kunnugt reynst afar vel. Hér er um að ræða athyglisverða nýjung.
    Þá ber þess að geta að barnaverndarnefndir hafa í ríkara mæli gert óformlegan samning við skólasálfræðinga, fræðsluskrifstofu eða starfsmenn á félagsmálastofnun í nærliggjandi þéttbýlissvæði um vinnuframlag þegar erfið úrlausnarefni eru til umfjöllunar. Breytilegt er frá einum tíma til annars í hvaða mæli þessi tilhögun þjónustunnar er. Það fer m.a. eftir því hvernig sálfræðiþjónusta er veitt í grunnskólum í viðkomandi umdæmi en erfiðlega hefur gengið að manna nokkrar stöður í sálfræðiþjónustu skóla úti á landi. Ráðuneytið telur að aðeins fáein sveitarfélög geti auðveldlega átt greiðan aðgang að sérfræðiþjónustu með þessum hætti, önnur geta haft það ef mikið liggur við.
    Í þriðja lagi er til að taka að barnaverndarnefndir ráða gjarnan til starfa sérfræðing, einn eða fleiri, til að vinna að afmörkuðu verkefni. Þessa þjónustu veita gjarnan félagsráðgjafar eða sálfræðingar sem reynslu hafa af viðfangsefni sveitarfélaga.
    Að öðru leyti er þeim sem á þurfa að halda bent á viðkomandi fagfélög, svo sem Sálfræðingafélag Íslands og Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, um frekari upplýsingar. Ráðuneytið telur ljóst að mjög fáir sérfræðingar hafi reynslu og menntun til að sinna erfiðum barnaverndarmálum. Þannig má telja að endanlegt svar við 2. og 3. lið fsp. það að allar barnaverndarnefndir í landinu ættu að hafa aðgang að sérfræðilegri þekkingu ef á þarf að halda og eftir er leitað. Hve auðveldlega nefndum vegnar við að fá aðgang að þeirri þjónustu er afar mismunandi. Ráðuneytið hefur að sjálfsögðu miklar áhyggjur af því að þetta veitist oft erfitt. Óhjákvæmilegt er í þessu sambandi annað en að benda á að mörg verkefni barnaverndarnefnda eru þess eðlis að ekki er nægjanlegt að leita sérfræðiálits heldur er oft um að ræða langtímaverkefni, stuðning og afskipti hvers konar sem erfitt eða illmögulegt getur verið að rækja á fullnægjandi hátt nema þar sem fastir starfsmenn barnaverndarnefnda eru. Í slíkum tilvikum verða nefndarmenn sjálfir að vinna þau verk sem um er að ræða. Það er kunnara en frá þurfi að segja hvaða erfiðleikum það er bundið fyrir óþjálfaða og undir mörgum kringumstæðum ómenntaða einstaklinga að leiða í höfn þær flóknu skyldur sem barnaverndarlögin leggja á herðar meðlimum barnaverndarnefnda í landinu.
    Í fjórða og síðasta lagi er leiðbeiningarskylda ráðuneytisins mörkuð í 2. mgr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna eins og fsp. réttilega vísar til. Ráðuneytið hefur tilheigningu til að túlka hlutverk sitt

svo að það sé öðru fremur að sjá um að við úrlausn barnaverndarmála og málsmeðferð sé í einu og öllu farið eftir ákvæðum laga og að gefa leiðbeiningar um eðlilega og góða stjórnsýsluhætti. Samskipti ráðuneytisins geta einnig einfaldlega falist í því að meta hvort eða að hvaða leyti sérfræðilegrar aðstoðar geti verið þörf í barnaverndarmálum. Ráðuneytið túlkar leiðbeiningarhlutverk sitt síður það að leggja efnislegt mat á þau atriði sem til umfjöllunar eru. Hins vegar er það svo í reynd að mikil tilhneiging er hjá þeim sem eftir leiðbeiningum leita að fá ráðuneytið til að ganga mun lengra í leiðbeiningaskyldu en að framan er lýst. Stafar þetta einfaldlega af þeirri staðreynd að flestar barnaverndarnefndir í dreifbýli landsins hafa engum starfsmanni á að skipa, eiga ekki greiðan aðgang að sérfræðiaðstoð í daglegum störfum og telja sér algjörlega um megn að vinna algeng verkefni sem ættu að vera á færi hverrar nefndar að vinna. Fullyrða má að í flestum erindum sem leitað er til ráðuneytisins með sé þess óskað að einhvers konar mat sé lagt á málavöxtu og er það gert að nokkru leyti eftir því sem við á.