Starfsmenn félagsmálaráðuneytisins í barnaverndarmálum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:42:48 (927)

[16:42]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ber fram á þskj. 151 fsp. til hæstv. félmrh. um starfsmenn félmrn. í barnaverndarmálum. Með leyfi hæstv. forseta þá vil ég bera upp þessa fyrirspurn hér:
  ,,1. Hve margir starfa sérstaklega að barnaverndarmálum í félagsmálaráðuneytinu, sbr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992? Hvaða fagmenntun hafa þeir starfsmenn?
    2. Eru gerðar svipaðar faglegar kröfur til starfsmanna ráðuneytisins í barnaverndarmálum og annars staðar á Norðurlöndum, t.d. í Noregi?``
    Ástæðan fyrir því að ég spyr sérstaklega um þetta er í fyrsta lagi ákvæði 3. gr. barnaverndarlaga. Í öðru lagi og kannski ekki síður vegna þess átaks sem ég nefndi hér áðan, sem Norðmenn hafa gert í barnaverndarmálum og mér skilst að flestir séu á einu máli um að hafi tekist býsna vel. Þar hefur farið fram mikil samhæfing og ég verð að viðurkenna að töluvert fjármagn sem því miður hefur ekki verið að heilsa hér á landi hefur verið lagt til málaflokksins. En það hefur jafnframt verið farið mjög ítarlega í það faglega starf sem þarf að inna af hendi. Ég vil nú sérstaklega vegna umræðna um síðustu fsp. taka fram að það skiptir máli í barnaverndarmálum að það sé klárt hver á að sinna hvaða verkefnum og nákvæmlega hvaða kröfur, faglegar kröfur eru gerðar á hverjum stað í kerfinu, ef ég má taka svo til orða.
    Það sem ég á einkum við í 3. gr. barnaverndarlaga er eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðuneytið skal hafa frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum á sviði barnaverndar. Það skal enn fremur veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála. Það skal hafa eftirlit með störfum allra barnaverndarnefnda á landinu, heimta frá þeim ársskýrslur og gefa árlega út skýrslu um starfsemi barnaverndaryfirvalda.``
    Í öðru lagi segir í lok þessarar greinar:
    ,,Það skal annast fræðslustarfsemi fyrir þá sem starfa að barnaverndarmálum, m.a. með útgáfustarfsemi og námskeiðum.``
    Þetta finnst mér í rauninni vega þyngst og því ber ég fram eftirfarandi fsp. og fagna því jafnframt að fjölskylduráðgjöf skuli vera í bígerð.