Starfsmenn félagsmálaráðuneytisins í barnaverndarmálum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:49:12 (929)


[16:49]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegur forseti. Mér fannst að þessi fyrirspurn væri nauðsynlegur endahnútur á þessar fjórar fyrirspurnir sem ég leyfi mér að bera fram í dag til hæstv. félmrh. um barnaverndarmál vegna þess að það hefur komið í ljós að aðrir starfsmenn í samfélaginu með sérhæfða menntun, fagmenntun, eru afskaplega fáir. Því hlýtur, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að mæða meira á ráðuneytinu en ella væri.
    Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að samanburður er erfiður milli Norðurlanda. En það sem ég var kannski að leita eftir með þessari fyrirspurn var að vita hvort það væri einhvers konar hugmyndafræðilegur grunnur sem ráðning starfsmanna hvíldi á, hvort búið væri að móta ákveðna stefnu. Ég tek undir það sem hv. 14. þm. Reykv. sagði hér áðan að það bendir allt til þess að okkur skorti átakanlega heildstæða stefnu í barnaverndarmálum þrátt fyrir ákveðnar skipulagsbreytingar sem vonandi munu með tíða og tíma leiða til þess að þessi mál komist í betra horf.
    Í þeirri skýrslu Hagsýslu ríkisins sem nokkuð hefur verið hér til umræðu þá eru tillögur um stjórnsýslu og samhæfingu í þessum málum. M.a. er lagt til að undirstofnun félmrn. sinni daglegri framkvæmd stjórnsýsluverkefna og barna- og unglingamálum og samhæfingarstarfi bæði almennt og í málefnum tiltekinna einstaklinga. Það er einkum bent á tvær leiðir til þess og ég held að það væri forvitnilegt í framhaldi af svörum hæstv. ráðherra að vita hvort það er að vænta einhverrar heildstæðrar stefnu í þessum málum.