Tilflutningur sýslumannsembætta

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:18:28 (939)

[17:18]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. dósmmrh. á þskj. 134 er lögð fram vegna þeirra áforma ríkisstjórnarinnar að leggja niður mörg embætti sýslumanna. Spurt er í fyrsta lagi:
    Hefur ríkisstjórnin látið kanna hvaða kostnaðarauka það mun hafa í för með sér fyrir einstaklinga að sýslumannsembætti víða um land verða lögð niður þannig að þeir verða að sækja þjónustu embættanna annað?
    Það má taka dæmi. Það er gert ráð fyrir að embættið í Búðardal muni leggjast af og Dalamenn muni sækja þessa þjónustu í Stykkishólm. Það er ekki einungis langt að fara úr Dölum í Stykkishólm, heldur um sérstaklega vonda vegi að ræða og því ekki úr vegi að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi skoðað þann kostnaðarauka fyrir einstaklinga sem af því hlýst að sækja þessa þjónustu um enn lengri veg. Þetta dæmi sem ég er með hér er ekkert einsdæmi.
    2. spurning: ,,Hve mikið tekjutap mun verða í verslun og þjónustu á þeim stöðum þar sem sýslumannsembætti verða lögð niður?
    Ef tekið er dæmi af Borgarnesi, þá eiga um 50 manns erindi á skrifstofu sýslumanns daglega. Þegar Mýramönnum og Borgfirðingum verður vísað niður á Akranes liggur það beint við að menn muni reka önnur erindi sín þar í leiðinni, svo sem verslun og margvíslega aðra þjónustu sem hingað til hefur verið innt af hendi í Borgarnesi. Hvorki Borgarnes né Búðardalur mega við því að missa spón úr aski sínum hvað varðar verslun og viðskipti. Búðardalur hefur t.d. um margra ára skeið mátt heyja harða varnarbaráttu í atvinnumálum. Hér virðist mér verið að riðla alvarlega þeirri þjónustu sem byggð hefur verið upp í samræmi við umsvif sem eru á stöðunum. Sú niðursveifla sem yrði í þessum tveimur sveitarfélögum mundi eflaust kosta ríkissjóð eitthvað.
    Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram að mér finnst eðlilegt að endurskoða sýslumannsembættin sem slík. Á þessum embættum hafa orðið víðtækar breytingar á liðnum árum en ég tel útilokað að draga svo verulega úr daglegri þjónustu, t.d. almannatrygginga og ýmiss konar vottorða og leyfisveitinga, fólki til mikils óhagræðis og kostnaðarauka.