Tilflutningur sýslumannsembætta

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:21:58 (942)


[17:21]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Svör hæstv. ráðherra komu mér alls ekki neitt á óvart. Það eru engin langtímamarkmið í gangi. Ef við skoðum t.d. þessi tvö dæmi sem ég var með áðan, Borgarnes og Búðardal, þá er nýlega búið að byggja yfir bæði þessi embætti. Nú er nýhafin bygging á Akranesi fyrir sýslumannsembættið. Ef fer sem horfir, þegar búið er að byggja yfir það embætti, þá eiga Akurnesingar trúlega að sækja þá þjónustu til Reykjavíkur. Það væri eftir öðru.
    Í fyrra var kostað til mjög dýrs tölvunets fyrir embættið í Borgarnesi sem nýtist okkur ekki neitt vegna þess að það eru engin langtímamarkmið í gangi.
    Héraðsdómur var opnaður í fyrra í Borgarnesi og undir héraðsdóm var keypt húsnæði sem kostaði 40 millj. kr. Nú á að skilja eftir húsnæði sýslumanns í Borgarnesi tómt og ekki að nýta.
    Í ár er verið að kaupa embættisbústað fyrir héraðsdómara í Borgarnesi, sá bústaður mun kosta um 10 millj. kr.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að selja sýslumannsbústaðinn sem eflaust er ekki mjög góð söluvara þannig að það er ekkert samhengi í hlutunum, akkúrat ekki neitt. Þannig að svör hæstv. dómsmrh. komu mér alls ekkert á óvart.