Tilflutningur sýslumannsembætta

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:25:05 (944)


[17:25]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er á miklum misskilningi byggt þegar hv. þm. segja að svör mín við þessum spurningum færi þeim heim sanninn um það að málið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið. Menn ættu fyrst að átta sig á því um hvað var verið að spyrja.
    Áður en þessar tillögur voru settar fram fór fram á því athugun að sjálfsögðu hvaða rekstrarhagræði og sparnaður yrði af þessu fyrir ríkissjóð. En hér er verið að spyrja um það hvaða áhrif þetta hafi á verslunarrekstur á viðkomandi stöðum. Ég veit að hv. þm. gera sér fulla grein fyrir því að sýslumannsembættin eru ekki starfrækt til að halda uppi verslunarþjónustu og alveg fráleitt að láta fara fram nokkra athugun á því hvaða áhrif þetta hefur á verslun og viðskipti. Við erum að tala um mjög mikilvæg embætti, þjónustu þeirra og hvernig haganlegast er að koma henni fyrir. En ég vísa því algjörlega frá að það sé eðlilegur undirbúningur að slíkri ákvörðun að framkvæma könnun á áhrifum þess á verslunarrekstur.
    Í annan stað er rétt að taka fram vegna athugasemda hv. 2. þm. Vestf. að þetta mál verður að sjálfsögðu ekki til lykta leitt með afgreiðslu fjárlagafrv. Hér þarf að breyta lögum og það er ráð fyrir því gert að leggja fram sérstakt frv. þar sem kveðið er á um þessar breytingar til þess að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem fyrir liggja í tillögum fjárlagafrv. og þá koma þau mál eðlilega til meðferðar í hv. allshn. eins og önnur lög. En fyrr en Alþingi hefur samþykkt slíkar lagabreytingar geta tillögur af þessu tagi ekki orðið að veruleika.