Árangur viðræðna við EB um landbúnaðarmál

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:31:47 (947)

[17:31]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Á þsk. 137 er fsp. frá hv. 2. þm. Suðurl., Jóni Helgasyni, svohljóðandi:
    ,,Hvernig hefur ráðherra tekist að standa á verði um hagsmuni íslensks landbúnaðar í samningaviðræðum við Evrópubandalagið um viðbæti 2--7 við bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?``
    Í þessari spurningu vísar hv. þm. til þeirrar óvissu sem verið hefur um verðjöfnun á unnum landbúnaðarvörum samkvæmt bókun 3 með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þessu er til að svara:
    1. Eitt helsta ágreiningsefnið hefur verið um það hvort Íslendingar mættu verðjafna fyrir kjöt og fitu í unnum vörum, en Evrópubandalagið hefur haldið því fram að það gengi ekki vegna þess að við höfum ekki lagt verðjöfnunargjald á þær vörur fyrir 1. jan. 1992.
    Nú hefur bandalagið boðið okkur undanþágu að þessu leyti gegn því að EFTA-ríkin fallist á þessa viðmiðunardagsetningu að öðru leyti. Eins og staðan er núna er því talið af okkar samningamönnum að hagsmunir okkar eigi að vera tryggðir hvað þetta atriði varðar en endanlegur texti liggur þó ekki fyrir.
    2. Önnur deila hefur staðið um svokallaða ,,minimize-reglu`` varðandi verðjöfnun þar sem Evrópubandalagið vildi upphaflega ekki viðurkenna verðjöfnun vegna kjötinnihalds nema kjötið næmi a.m.k. 10% af viðkomandi vöru. Ísland og Noregur hafa á hinn bóginn haldið sig við 1% viðmiðun.
    Nú hefur talsmaður EFTA-ríkjanna lagt til 4% mörk sem málamiðlun en það samsvarar 2--3% kjötinnihaldi samkvæmt eldri reiknireglum. Norðmenn hafa gefið í skyn að þeir sætti sig við þetta og mín skoðun er sú að Íslendingar eigi að gera það einnig að því tilskildu að heimild okkar til verðjöfnunar vegna kjötinnihalds verði ótvíræð og engum skilyrðum háð að öðru leyti. Þá tel ég engum hagsmunum fórnað með þessari 4% viðmiðun.
    3. Ísland hefur gert þá kröfu að við útreikning á verðjöfnun mjólkurafurða skuli miðað við niðurgreitt eða óniðurgreitt verð á mjólkurfitu og mjókurpróteini eftir því sem við á hverju sinni.
    Þetta hefur enn ekki fengist viðurkennt, en á hinn bóginn hefur Evrópubandalagið viðurkennt það að heimilt verði að nota tvenns konar verð á smjöri sem gefur vísbendingu um það að þarna muni nást lausn. Þetta hefur grundvallarþýðingu fyrir íslenska hagsmuni.
    4. Ekki er að fullu gengið frá því hvernig hagað verði öðrum viðmiðunarverðum vegna verðjöfnunar. Samningsaðilar hafa nálgast hvorir aðra og náist samkomulag um öll fyrrgreind atriði á þann veg sem um er rætt virðist það viðunandi fyrir Ísland.