Árangur viðræðna við EB um landbúnaðarmál

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:34:45 (948)


[17:34]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og jafnframt þakka honum fyrir það

að vera að reyna að halda fram okkar hagsmunum. En hins vegar hlýt ég að láta í ljós vonbrigði mín um það að mál skuli standa þannig, eins og hann lýsti, að um atriði sem hafa grundvallarþýðingu fyrir okkur skuli ekki enn hafa fengist niðurstaða og það svífi allt í lausu lofti enn þá um hver niðurstaðan verður. Ég býst við að mörgum okkar a.m.k. finnist að það sé sérstök ástæða til að fylgjast vel með og fá örugga niðurstöðu þar sem það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er mjög mikill ágreiningur milli ráðherra um þessi mál og samráðherrar hæstv. landbrh. hafa lýst því yfir að í samningum við erlendar þjóðir ætli þeir að ná sér niðri á þeim sem hafa viljað hafa einhverja stjórn á innflutningi.
    Því vil ég skora á hæstv. ráðherra að láta ekki deigan síga og halda áfram vörslu sinni.