Fjöleignarhús

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 13:50:49 (951)

[13:50]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er aftur komið til umfjöllunar frv. til laga um fjöleignarhús. Í grg. með frv. kemur fram að þetta sé alþjóðlegur og innlendur samtíningur og mér þykir það orð að sönnu því satt að segja er þetta líka sparðatíningur. Það kemur einnig fram í greinargerð með frv. að þetta sé ítarlegra og fyllra og hafi að geyma fleiri svör við fleiri álitaefnum en nokkur samsvarandi löggjöf, a.m.k. í Evrópu. Og þá vakna náttúrlega þær spurningar hvort við höfum staðið í svona miklum erfiðleikum varðandi fjölbýlishús almennt, en fjöleignarhús í þessu frv. eru þessi fjölbýlishús sem við höfum áður nefnt svo.
    Bara orðið fjöleignarhús, maður staldrar bara við það eitt að búa í fjöleignarhúsi í Breiðholti. Ég skil nú ekki almennilega þrátt fyrir miklar skýringar í þessu frv. hvers vegna þessi breyting á sér stað og væri gaman að heyra nánari skýringar hjá hæstv. félmrh. um það. Það eru líka ýmis hugtök sem eru mjög rækilega skýrð í þessu frv., svo rækilega að mann undrar. Ég hélt nú satt að segja að ef þetta frv. yrði lagt fram aftur, þá yrði ýmislegt tekið út úr því sem flestum ætti að vera algerlega ljóst, t.d. eins og í 3. gr. en þar er ítarlega skýrt hvað sé hús. Í 3. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Með húsi í lögum þessum er átt við byggingu, sem er varanlega skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim, þótt sambyggð og samtengd séu, að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana samkvæmt lögum þessum sem sjálfstætt hús.``
    Nú hef ég aldrei séð hús í lausu lofti þannig að maður spyr sig hvers vegna þetta þarf að vera svona í lagagrein. Síðan kemur hérna í 6. gr. sem er afar flókin grein að mínu mati, það er um hugtakið ,,sameign``:
    ,,Þótt fjöleignahús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum), sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standa á einni lóð eða fleirum, er allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar, í sameign allra eigenda þess.
    Sameign er sameign allra nema svo hátti að um sameign sumra sé að ræða skv. 7. gr.``
    Svo kemur sameign sumra og þá er þetta enn þá flóknara og ég ætla ekki að þreyta menn með því að lesa það. Þeir geta gert það sjálfir sem hafa áhuga fyrir því. En þá er rækilega skýrt hvað er sameign sumra og hvað er ekki sameign sumra, þ.e. sumra og sumra ekki.
    Svo kemur í 8. gr. nánar um sameign og þá kemur í ljós að allt er nú sameign nema svaladyr. Svaladyr geta aldrei orðið sameign, en það hlýtur nú að vera að þær geti orðið sameign hjóna. Fyrst þetta er svona nákvæmt, þá finnst mér spurning hvort það vanti ekki þarna í til að það verði ekki neinn misskilningur eða flókin vandamál út úr því.
    Svo kemur 9. gr. ,séreign eða sameign. Greinin endar svo rétt til þess að gera þetta alveg óskiljanlegt: ,,Hafi eigandi einn kostað ákveðinn búnað, tiltekna framkvæmd eða byggingarþátt, þá eru á sama hátt líkur á því að um séreign hans sé að ræða`` en ekki alveg ótvírætt.
    Svo kemur hér í 10. gr., skipting fjöleignarhúsa, sérkenni eignarformsins. Og hér er getið um það að séreignahlutum fylgja eftir hlutfallstölum réttindi og skyldur til að taka þátt í félagsskap allra eigenda um húsið, húsfélagi, þar sem öllum sameiginlegum málefnum skal til lykta ráðið. Hér ríkir sem sagt ekkert félagafrelsi. Það er ekki félagafrelsi sumra og sumra ekki eins og víða er getið í þessu frv.
    Svo kemur hérna í 17. gr. dálítið merkilegur kafli: Eignaskiptayfirlýsingar.
    ,,Í eignaskiptayfirlýsingu skulu eftirfarandi atriði koma fram á skýran og skilmerkilegan hátt:
    1. Um hvaða fjöleignahús er að ræða. Gefa skal það til kynna með götunafni, húsnúmeri og sveitarfélagi.`` Nú spyr ég: Er þetta kannski alveg nýtt að það þurfi sérstaklega að taka fram götunúmer og götuheiti og sveitarfélag? Þetta eru náttúrlega svo sjálfsögð atriði að það er alveg makalaust að hafa þetta í lagatexta.
    Það er hægt að telja svo margt upp sem er sérkennilegt í þessu frv. Það er t.d. í 37. gr., það eru ráðstafanir til að forða tjóni. Er greinin svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Eiganda er heimilt að gera brýnar ráðstafanir til að oma í veg fyrir yfirvofandi tjón`` --- það er sem sagt leyfilegt að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón --- ,,á sameign eða einstökum séreignarhlutum og ekki þola bið eftir sameiginlegri ákvörðun húsfélagsins eða stjórnar þess``. Það þarf sem sagt ekki að kalla saman húsfélagsfund ef eldsvoði verður. Það er óhætt sem sagt að taka slökkvitæki og slökka. Þetta er sérstök grein um þetta í þessu frv.
    Þetta er allt saman sem sagt mjög merkilegt. Og svo kemur hérna í 38. gr. um nauðsynlegt viðhald og athafnaleysi húsfélags. Þar stendur:
    ,,Áður en framkvæmdir hefjast skal viðkomandi eigandi jafnan afla sönnunar á nauðsyn viðgerðarinnar, umfangi hennar og kostnaði við hana og öðrum atriðum sem máli geta skipt. Skal viðgerðin síðan framkvæmd á þeim grundvelli en óveruleg og óhjákvæmileg frávik skipta þó ekki máli.``
    Það verður einhver að bera þarna sönnunarbyrði um að það þurfi að grípa til viðgerða. Það er sem sé afskaplega flókið eins og allir sjá sem lesa þetta frv. að búa í fjöleignarhúsi og það kemur fram í þessu frv. að það sé nauðsynlegt að mönnum séu skýrar þær reglur og þær kvaðir sem á mönnum hvíla sem búa í fjöleignarhúsum. Ég vil leggja til að þetta yrði gert svolítið einfaldara. Og ég legg nú til að ef þetta frv. verður að lögum, þá sjái hæstv. félmrh. svo til að það yrði námskeið fyrir fjöleignarhúsaeigendur á Íslandi og held að það þyrfti bara að vera skylda svo flókið sem þetta er. En ég vona nú að okkur takist að gera þetta aðeins einfaldara og auðlesnara en það er í dag og þó að ég beri mikla respekt fyrir þeim sem þetta frv. hafa samið, þá má öllu ofgera. Mér finnst hálfpartinn eins og þeir hafi verið ofvirkir á köflum.