Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 14:44:53 (958)

[14:44]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hefur verið lagt fram til umræðu er endurflutt frá síðasta ári eins og kom fram í ræðu hæstv. félmrh. Það er nú svo að fyrir liggur ærinn bunki af umsögnum um þetta mál og þær umsagnir eru yfir höfuð tiltölulega jákvæðar. Það er nú ekki að sjá að frv. hafi verið endurskoðað á sl. sumri þrátt fyrir þennan bunka af umsögnum ýmissa aðila þannig að það er full ástæða til þess að félmn. fari vandlega yfir málið og fari vandlega yfir þær umsagnir sem borist hafa og kanni ýmsa þætti þessa máls þó að vissulega sé margt í frv. sem horfi til bóta.
    Ég vil gera að umræðuefni örfá atriði, en vil geta þess að frv. bætir að mínum dómi í mörgu réttarstöðu leigjenda og kveður skýrar á um samskipti leigusala og leigutaka. Hæstv. félmrh. hefur rakið meginatriði frv. um forgangsrétt leigusala, ákvæði um fardaga eru felld niður og inn koma ákvæði um kærunefnd og húsaleigunefndir sveitarfélaga og húsnæðisnefndir sveitarfélaga sem eiga að taka við þeirra hlutverki.
    Hér skal það tekið fram að ég tel ekki vera ágreining um það meginmarkmið laganna að gera ákvæði um húsaleigusamninga skýrari en löggjöf og auka rétt leigjenda eftir því sem við verður komið. Hins vegar leysir löggjöfin aldrei öll vandamál leigjenda jafnvel þó að hún sé ítarleg í mörgum greinum og með ítarlegum skýringum. Það er framboð og eftirspurn á leigumarkaði sem ræður fyrst og fremst skilyrðunum í þessu efni og réttur leigjenda takmarkast nokkuð af því hvaða úrkosti hann á þrátt fyrir alla lagasetningu í þessu efni. Meðalvegurinn er því vandrataður og það verður auðvitað að gæta þess að lagasetningin sé ekki þannig úr garði gerð að hún dragi beinlínis úr framboði á leiguhúsnæði þó að ég undirstriki það að auðvitað verður hún að gæta réttar leigjenda og leigusala svo vel sem auðið er. Ef löggjöf yrði til þess að draga úr framboði á húsnæði, þá hækkar það auðvitað þar með húsaleigu á almennum markaði og leigjandinn stendur þar af leiðandi verr að vígi eftir. Það á hins vegar að vera bæði leigusölum og leigutökum í hag að það séu skýr og fortakslaus ákvæði í löggjöf um þessi viðskipti. Það hefur verið nokkuð rætt um það og m.a. varðandi það mál sem var til umræðu hér á undan um fjöleignarhús hve ítarleg löggjöfin á að vera og það er vissulega svo með þetta mál eins og það mál að hér í þessari löggjöf eru afar ítarleg ákvæði en eigi að síður vantar kannski í öðrum greinum skýrari ákvæði um framgang mála eins og ég kem aðeins að síðar.
    Það verður ekki komist hjá því varðandi framboð á leiguhúsnæði að ræða um skattlagningu leigutekna og meðferð leigutekna í skattakerfinu. Í umsögn sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkir þann 14. apríl sl. er athyglisverður kafli um þessi mál. Þar kemur fram það álit ASÍ að flestir leigusalar velji þá leið að gefa ekki upp neinar leigutekjur frekar en að setja upp rekstrarreikning með litlum eða engum frádráttarliðum. Þar kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra má ætla, að 3 / 4 eigenda telji ekki fram leigutekjur, enda sé sennilega oftast óformlegt samkomulag um að leigutaki telji leiguna heldur ekki fram. Upplýsingar um leigutekjur á íbúðum sem koma fram á skattskýrslum eru mjög ótrúverðugar eða á bilinu 13--15 þús. kr. á mánuði. Ég held að það verði ekki hjá því komist að endurskoða þær reglur sem gilda um skattlagningu leigutekna og að leigutaki hafi einhvern hag af því að gefa upp þau útgjöld sem hann hefur af húsaleigu.
    Það verður ekki komist hjá því heldur varðandi það mál sem hér er til umræðu, þó það snerti kannski ekki þessa löggjöf nema óbeint, að spyrja hæstv. félmrh. að því hvað líði hinu umtalaða frv. um húsaleigubætur sem boðað var að flutt yrði á Alþingi núna á haustdögum og var mjög umtalað fyrir nokkrum vikum. Það var eitt af þeim málum, eitt af mörgum, eitt af fjölmörgum, sem ríkisstjórnin kom sér náttúrlega ekki saman um. En síðan hefur hljóðnað um þetta mál og það hefur ekki verið minnst á húsaleigubætur hér í einar 2--3 vikur. Ég spyr því: Er það ætlun hæstv. félmrh. að leggja þetta frv. fram? Hvenær er það væntanlegt og er það hans mat að það komi hvergi inn á þessa löggjöf sem við erum nú að ræða um? Ég held að það verði ekki hjá því komist að skýra þetta um leið og við vísum þessu máli til nefndar eftir 1. umr. málsins.
    Ég vil nefna hér aðeins örfá meginatriði, sem ég vil hafa fyrirvara við á þessu stigi og vil að verði skoðuð mjög vel í félmn. Ég á sæti í nefndinni svo að ég get auðvitað komið fram þeim sjónarmiðum í nefndarstarfinu. Ég vil t.d. athuga mjög vel og hafa fyrirvara um ákvæðið um fardagana. Það er margt sem mælir með því og hæstv. félmrh. tíndi fram rök sem mæla með því að þetta ákvæði verði fellt út úr lögunum. Hins vegar eru önnur rök líka sem mæla gegn því eins og t.d. þau að það sé hægt að segja fólki upp húsnæði og láta það víkja úr húsnæði á miðju skólaári fyrir barnafjölskyldur. Ég held að það verði að skoða þetta mál líka frá því sjónarhorni.

    Það má spyrja varðandi leigumiðlanir hvort nauðsynlegt sé að félmrh. veiti starfsleyfi um leigumiðlanir, hvort ekki er hægt að hafa það á heimavettvangi, sveitarfélög veiti það starfsleyfi eða lögreglustjóri í hverju sveitarfélagi. Leigumiðlun er atvinnustarfsemi og er endilega nauðsynlegt að félmrn. fari að veita leyfi til þessarar atvinnustarfsemi frekar en annarrar? Ég hygg að í flestum tilfellum, í dreifbýlinu a.m.k., komi þetta hlutverk inn til sveitarfélagana með einhverjum hætti og inn til húsnæðisnefndanna í sveitarfélaginu, að leitað sé til þeirra með þetta hlutverk. Ég vil hafa fyrirvara um þetta og skoða þetta nánar.
    Það er gert ráð fyrir að byggingarfulltrúar taki við úttekt á húsnæði og húsnæðisnefndir sveitarfélaganna taki yfir hlutverk húsaleigunefnda. Ég sé ekki í fljótu bragði neitt athugavert við þessi ákvæði og tel það rétt að húsnæðisnefndirnar taki þetta hlutverk að sér. Ég sé ekki að það sé hentugt fyrirkomulag að hafa tvær nefndir í einstökum byggðarlögum sem vinna báðar á sviði húsnæðismála. Það er því margt í þessu frv., eins og ég kom að í upphafi, sem til bóta horfir, en eigi að síður eru fjölmörg atriði sem þarf að skoða betur. Það liggur fyrir félmn. að fara yfir þær mörgu umsagnir sem bárust um þetta mál á liðnu vori og leita þá eftir fleirum og kalla menn til viðtals ef á þarf að halda. Það eru áreiðanlega fjölmörg atriði sem koma upp varðandi þetta mál sem ég áskil mér rétt til þess að koma að í 2. umr. um málið. Þessi lagabálkur er mjög mikilvægur. Hann snertir mjög mikilvæga hagsmuni og það er nauðsyn að vanda vel til. Það er ekki síst í mínum huga að þessi lagabálkur verði ekki til þess að draga úr framboði leiguhúsnæðis og hækka verð á húsaleigumarkaðinum sem er víða, þar sem framboðið er lítið, ærið hátt og leigjendur búa við okurverð sums staðar og slæm kjör.
    Ég ætla ekki vera margorður um skilgreiningar í frv. eða ýmsa nákvæmni sem kemur þar fram. Það gefst tækifæri til að fara í gegnum þau mál síðar. Það er hér víða sagt mjög náið fyrir um framvindu mála. Það er t.d. ákvæði um það í 57. gr. frv. að leigjandi eigi að skila húsinu kl. eitt daginn eftir að uppsagnarfresti lýkur. Ég veit ekki af hverju leigjandinn má ekki hafa seinni part dagsins líka til þess að skila húsinu. Þetta gildir að vísu þegar maður fer út af hótelum, en þetta er nú kannski ekki alveg sambærilegt. Hér er sagt fyrir um það að hann eigi að skila lyklunum og láta leigusala hafa heimilisfang sitt, en annars staðar má kannski skýra ýmis ákvæði betur eins og gengur. Það gefst tækifæri til að fara yfir þetta í félmn. þegar frv. kemur til hennar þannig að ég ætla ekki að orðlengja um þetta efni við 1. umr. En ég tek undir þann anda sem kom fram hér í umræðum um frv. um fjöleignarhús, að texti löggjafar verður auðvitað að vera eins knappur og hægt er og skýr og á mannamáli, hvort sem hv. félmn. tekst nú það hlutverk sitt að koma þeim hætti á.
    En ég vil undirstrika þá spurningu hvort það sé ætlunin að leggja fram frv. um húsaleigubætur og hvað er þá ætlun hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórnar að vera ríflegur í því efni og ætla mikla fjármuni til þess. Í öðru lagi væri full þörf á því að athuga skattalega meðferð leigutekna þó að það komi kannski ekki beinlínis inn á það frv. sem hér er til umræðu, að fá heildarlöggjöf um húsleigulög sem hér er rætt um.