Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:02:46 (959)

[15:02]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók að nokkru leyti af mér ómakið. Ég hafði einmitt ekki síst hugsað mér að ræða við hæstv. félmrh. um það atriði sem hann sérstaklega nefndi, sem sagt meintar húsaleigubætur. Það eru nokkur önnur atriði sem ég vil þó nefna hér.
    Í fyrsta lagi dreg ég það ekki í efa að í þessu frv. felist að flestu leyti framför frá gildandi lögum um húsaleigusamninga, eins og þau hétu nú víst, og það er ekki vafi á því að lagaákvæðin bæta að sumu leyti réttarstöðu leigjenda t.d. hvað forgangsrétt varðar og fella niður löngu úrelt ákvæði um fardaga sem eiga orðið lítið erindi inn í lög um mál af þessu tagi í nútímanum.
    Það er þó eitt efnisatriði sem ég staldra aðeins við og það er sú breyting sem ákveðin er eða boðuð er á hlutverki úttektarmanna, sem áður voru í IX. kafla húsaleigusamningslaganna. Nú kann það vel að vera, án þess að ég þekki til þess í einstökum atriðum, að þau ákvæði hafi verið harla óvirk og ekki reynt víða á þau. Ég hygg þó að þessi úrræði hafi verið fyrir hendi í einhverjum af stærri sveitarfélögunum og það er sjálfsagt eðlileg breyting hvað varðar hinn faglega eða tæknilega hluta þess starfs sem úttektarmönnum var ætlað að sinna, að færa þetta yfir til byggingarfulltrúa. Og ég geng að sjálfsögðu út frá því að um þetta hafi verið rætt við sveitarfélögin og þau séu tilbúin til að taka þetta verkefni að sér. Í samræmi við reynsluna af ástríkri sambúð hæstv. félmrh. og sveitarfélaganna í landinu á undanförnum árum, þá gef ég mér að sjálfsögðu að frá þessu hafi verið gengið áður en þetta var flutt hér í frumvarpsformi af hálfu ríkisstjórnar og þá sömuleiðis hvernig með kostnað skuli fara í þessum tilvikum. Eldri ákvæði um úttektarmenn gerðu einfaldlega ráð fyrir því að leigjendur borguðu í öllum tilvikum kostnað vegna úttektanna, til helminga ef það var úttekt við leigjendaskipti, þ.e. við upphaf eða lok leigutíma, en sá aðili sem óskaði eftir þjónustu úttektarmanns ef það var gert sérstaklega. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að sveitarfélögin eða byggingarfulltrúaembættin fái heimild til að taka gjöld fyrir þessa þjónustu. Það er sem sagt leyst á þann einfalda máta að hafa tiltölulega opið gjaldtökuákvæði í 69. gr. frv. og vakna þá auðvitað

spurningar hvað heittrúarmenn segja við svona tiltölulega opnu framsali á gjaldtökuheimild eins og þarna er á ferðinni.
    En eitt atriði hverfur þó út úr starfslýsingu þeirri sem áður átti við um úttektarmennina og það kann vel að vera að það sé úrelt og eigi ekki við í nútímanum, en þeir voru af sérstökum ástæðum dómkvaddir sem slíkir. Bæjar- og sveitarstjórnum var gert að sjá til þess að dómari dómkveddi til úttektarmenn og það helgaðist af því að þeim var ætlað ákveðið hlutverk í sambandi við lausn deilumála þegar þau komu upp, þ.e. að leita leiða til að leysa með samkomulagi ágreining og deilumál eins og segir í 64. gr. gildandi laga, með leyfi forseta:
    ,,Þeir skulu kosta kapps um að leiða ágreining og deilumál til lykta með friðsamlegum hætti og vera leigusölum og leigutökum til leiðbeiningar og ráðgjafar eftir því sem tök eru á.``
    Eðli málsins samkvæmt hverfur þetta hlutverk út úr verklýsingu þeirri sem byggingarfulltrúum er ætlað að hafa í sambandi við þessar úttektir. Þeir verða með öðrum orðum eingöngu faglegir eða tæknilegir úttektarmenn, koma ekki nálægt framvæmd þess að öðru leyti hvað varðar hugsanleg ágreiningsmál eða lausn þeirra. Eins og ég segi, nú kann vel að vera að það sé tímaskekkja og ekki lengur raunhæft eða hafi jafnvel aldrei verið að ætla slíkum dómkvöddum mönnum sáttasemjarahlutverk, en mér fannst alla vega rétt að vekja athygli á þeirri breytingu sem þarna er lögð til. Hæstv. félmrh. hefur e.t.v. einhverjar skýringar á því hvers vegna þessi breyting er lögð til.
    Að lokum vil ég víkja að þessu með húsaleigubæturnar, ekki bara vegna þess að þær eru auðvitað stórmál í sjálfu sér og fyrir löngu búið að boða að þær muni koma til, ef ég man rétt, og það held ég að ég geri því af sérstökum ástæðum fletti ég því kveri í morgun. Þá stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. apríl 1991 að það muni koma til sérstakar ráðstafanir til að bæta kjör leigjenda á kjörtímabilinu, gott ef það er ekki bara gefið í skyn að það kæmi fyrr en seinna. Og hvort þetta gengur svo aftur eða er einnig í hvíta bæklingnum frá haustinu 1991, sem heitir því kúnstuga nafni ,,Velferð á varanlegum grunni``, skal ég nú ósagt látið, en þetta fyrirheit, þetta loforð er alla vega að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er nú von að maður spyrji og eftir fréttir sem orðið hafa af sviptingum í ríkisstjórn um þetta mál, hvers er að vænta um húsaleigubætur, hæstv. félmrh.? Verður flutt frv. á þessu þingi og það lögfest og koma slíkar bætur þá til framkvæmda, t.d. á næsta fjárlaga- og skattaári? Mega leigjendur vænta þess að fá t.d. greiðslur frá ríkisféhirði á venjubundnum tíma þegar bótagreiðslur eftir skattauppgjör fara fram eins og á við um barnabætur eða barnabótaauka, vaxtabætur og aðra slíka hluti? Þær fá landsmenn yfirleitt sendar í ágúst á ári hverju. Það er því ekki seinna vænna fyrir hæstv. ríkisstjórn að drífa sig í að lögfesta þessi ákvæði ef þetta á að koma til framkvæmda.
    Mergurinn málsins er sá að ef það gerir það ekki og verður ekki greitt út með öðrum tekjutengdum eða skattatengdum greiðslum á árinu 1994, þá er þar með auðséð að ríkisstjórnin svíkur þetta kosningaloforð, að húsaleigubætur muni koma til framkvæmda á kjörtímabilinu. Það gera þær ekki samkvæmt mínum skilningi nema þær komi til greiðslu á árinu 1994, ella kæmu þær væntanlega ekki til greiðslu af tæknilegum ástæðum fyrr en 1995 og þá verður kjörtímabilinu lokið nema það standi til að lengja það, kannski með bráðabirgðalögum eða einhverjum slíkum ráðstöfunum. Því lýkur sem sagt í síðasta lagi 20. apríl 1995. Það sem við höfum heyrt um húsaleigubæturnar og liggur nokkuð í hlutarins eðli er að þær verði þannig settar í skattkerfinu, að þær verði meðhöndlaðar og framkvæmdar með hliðstæðum hætti og t.d. barnabætur eða barnabótaauki og vaxtabætur og þá sé ég ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa að slíku nema gera það með greiðslum í tengslum við skattauppgjör eða framtöl manna eins og gert er í hliðstæðum tilvikum. Ég held að málið liggi þannig ósköp einfaldlega, að tíminn fyrir hæstv. ríkisstjórn til þess að standa við þetta loforð eða ekki er núna. Ef það á að standa að þessum framkvæmdum með eðlilegum hætti, þá þarf að lögfesta ákvæðin nú fyrir áramót þannig að þau verði orðin gild lög við upphaf næsta skattaárs. Og ég vænti þess að hæstv. félmrh. geti gefið okkur einhver skýr svör um þetta efni.
    Þetta er einnig stórmál af þeim ósköp einföldu ástæðum að menn hafa mjög horft til húsaleigubóta sem tækis í því sambandi að bæta réttarstöðu leigjenda almennt í þjóðfélaginu, ekki bara þeirra sem njóta þeirra í meira eða minna mæli sjálfir, heldur líka vegna þess að komi húsaleigubæturnar til og myndi þær skattstofn eða stofn til útgreiðslna á bótum, þ.e. húsaleigan sjálf, þá mun það væntanlega verða mjög virk aðferð til þess að draga þessa samninga upp á yfirborðið eða koma þeim á öllu heldur. Staðreyndin er auðvitað sú og það vita menn og á ekki að tala neina tæpitungu um það, að stór hluti leigjenda í landinu leigir húsnæði án nokkurra samninga þar um. Og í fæstum tilvikum, í minni hluta tilvika a.m.k. að allra mati, er húsaleigan gefin upp. Þetta eru ósköp einfaldlega aðstæður málsins og því neitar ekki nokkur maður að þannig liggur þetta. Og þá er nú til lítils, því miður, fyrir allan þorra húsleigjenda að setja svona fína löggjöf. Staðreyndin er nefnilega sú að þeir menn sem ekki leigja húsnæðið á grundvelli löglegs samnings og njóta þar með þeirrar réttarverndar sem slíkur samningur með vísan til laga gefur eru ósköp lítið betur settir þó að menn séu að puða við það hér á Alþingi að betrumbæta einhverja húsaleigulöggjöf. Þeir eru þá algerlega ofurseldir þeim kjörum sem þeim bjóðast og oftast á munnlegum grundvelli hjá sínum leigjendum.
    Með skynsamlega útfærðum húsaleigubótum mætti bæta efnahagslega stöðu þessa hóps, sem án efa er mjög slæm í stórum hluta tilvika ósköp einfaldlega vegna þess að þarna er á ferðinni sá hópur sem ekki hefur með neinum hætti haft tök á því að koma sér í eigið húsnæði og er þess vegna ofurseldur húsaleigumarkaðinum oft og tíðum árum saman eða ævilangt. Þetta er fólk með lágar tekjur og erfiðar aðstæður af þeim sökum og borgar háa leigu eins og hún hefur lengst af verið og myndar þá enga eign á meðan. Ef þetta tekst, þá batnar jafnframt við það réttarstaða leigjenda almennt og þetta veldur því að húsaleigusamningar, löglegir samningar, verða teknir upp sem almenn venja í þessum viðskiptum, þá er auðvitað eftir miklu að slægjast í þeim efnum og af þeim ástæðum held ég að það sé sérstök ástæða til þess að knýja á um það að húsaleigubætur komist á og vonandi eðlileg skipan mála þá í framhaldinu.
    Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, hæstv. forseti. Ég vona að hæstv. félmrh. geti gefið okkur hér skýr svör og góð svör, sem sagt fullvissað okkur um að nú verði þetta loforð ríkisstjórnarinnar úr stefnuyfirlýsingu hennar efnt með því að hér verði lögð fram og þá vonandi lögfest, og það skal ekki standa á okkar stuðningi í því sambandi, þau lagaákvæði sem til þarf fyrir áramót.