Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:27:37 (963)

[15:27]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það hafi orðið nokkur tíðindi hér í þessari umræðu sem hljóti nú að kalla á viðbrögð og ég vil byrja á því að spyrja hvort hæstv. fjmrh. sé einhvers staðar nær húsum þannig að hugsanlega gefist færi á að leggja hér einnig spurningar fyrir hann. Skyldi það ekki vera að þau hafi átt sérstaklega um þetta, hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., og ég tel þess vegna eðlilega og sanngjarna ósk að það verði a.m.k. kannað hvar hæstv. fjmrh. er þannig að okkur gefist færi á að heyra hans sjónarmið í þessu máli, ef hann er ekki langt undan. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur.) Nei. Þá ber í nokkurn vanda, hæstv. forseti, vegna þess að það kemur berlega fram í svörum hæstv. félmrh. að í þessu máli er engin niðurstaða í ríkisstjórn. Það verður þess vegna að kalla til fleiri en hæstv. félmrh. ef það á að reyna að fá einhvern botn í það hér hvar þessi mál standa. Nú er þetta ekki eins og einhver þvermóðska í okkur leiðinlegum stjórnarandstæðingum að spyrja út í þetta. Hér er einfaldlega verið að spyrja hvort hæstv. ríkisstjórn ætli að efna marggefin og skýr loforð um það að taka upp húsaleigubætur. Það er þannig að í þessu litla kveri sem ekki rúmar nú mikinn texta og gefið var út 30. apríl 1991, þá komst nú samt fyrir setning um húsaleigubætur eða málefni leigjenda því þar stendur að ríkisstjórnin hyggist m.a. ná markmiðum sínum með eftirfarandi aðgerðum, og er þar nú margt kostulegt ef ég má í framhaldi lesa 1. tölul., hæstv. forseti: ,,...með sáttargjörð um sanngjörn kjör þannig að auknar þjóðartekjur skili sér í bættum lífskjörum, m.a. með aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu og barnafjölskyldum að gagni.``
    Í framhaldi af þessu lækkaði ríkisstjórnin persónufrádráttinn, skerti barnabætur um 600 millj. og þar fram eftir götunum. Það var aðferð hennar við að aðstoða hina tekjulægstu og barnafjölskyldurnar sérstaklega. En í 8. tölul. er fjallað um húsnæðismál í þessum texta og þar segir:
    ,,Húsaleigulög verði endurskoðuð, framboð aukið á leiguhúsnæði og aðstoð veitt til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda.``
    Og ekki þótti nú nóg að gert því að í velferðarbókinni miklu frá því í október 1991 þótti ríkisstjórninni rétt að hnykkja á þessum texta og þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Húsaleigulög verða endurskoðuð og stuðlað að auknu framboði á leiguhúsnæði. Þegar á næsta ári verður gripið til sérstakra aðgerða til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda.`` --- Þegar á næsta ári.
    Þetta var gefið út haustið 1991. Næsta ár var sem sagt, hæstv. forseti, árið 1992. Nú er árinu 1993 að ljúka og hæstv. félmrh. kemur hér og segir: Vonandi, e.t.v., fljótlega, bráðum, með gildistöku 1995. Og hæstv. fjmrh. er náttúrlega ekki í húsinu þannig að hægt sé að spyrja hann um hans hugmyndir um efndir á þessu afdráttarlausa loforði í sjálfri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og stefnu- og starfsáætlun sem gefin var út í október 1991.
    Það er að vísu þannig að hæstv. félmrh. upplýsir svo hér að nú sé meiningin að velta þessu verkefni yfir á sveitarfélögin og þau eigi að greiða einhvers konar húsaleigubætur, væntanlega þó, a.m.k. í fyrstu umferð, fjámagnaðar af ríkinu, en við vitum hvernig til getur tekist með slík samskipti af fenginni reynslu. Og ef ég skil hæstv. félmrh. rétt þá er væntanlega verið að boða framkvæmd á þessum atriðum sem er þá þannig að ekki er tekið tillit til tekna. Ég spyr hæstv. félmrh. hvernig ríkisstjórnin hafi þá hugsað sér að sveitarfélögin standi að framkvæmdinni ef hún á að greiða þetta til leigjenda í jöfnum greiðslum á hverjum mánuði, en þetta eigi sem sagt ekki að vera hluti af skattframtölum og uppgjöri með svipuðum hætti og aðrar tekjutengdar bætur í skattkerfinu eru, svo sem eins og barnabótaauki og vaxtabætur. Það voru hin upprunalegu áform sem ég bjóst við að væru enn á döfinni og sem ég verð að segja að ég hefði talið mikið vænlegri til árangurs, því með því móti er hægt að nýta fjármunina betur. En ef eitthvað annað er á döfinni þá væri fróðlegt að hæstv. félmrh. upplýsti það hér.
    En það er sem sagt því miður ljóst að hér er verið í raun og veru að boða okkur það að um hreinar og klárar og algjörar vanefndir verði að ræða á þessu loforði og í besta falli þá sjái þetta dagsins ljós á síðustu mánuðunum sem stjórnin lifir fyrir kosningar vorið 1995. Það er ekki merkileg frammistaða satt best að segja eftir allt sem á undan er gengið og öll loforðin og heitstrengingarnar um það að eitthvað verði gert fyrir leigjendur.
    Hæstv. félmrh. flutti reyndar ágæta framsöguræðu fyrir því hversu mikið réttlætismál og brýnt og þarft það er að taka upp húsaleigubætur og við kunnum henni auðvitað þakkir fyrir þennan hjartnæma texta sem hér var fluttur. En framkvæmdin stendur svona, það verður að horfast í augu við það, og spurning hvort hæstv. félmrh. er ekki svolítið að skjóta sig í lappirnar með því að flytja slíka texta um ágæti upptöku húsaleigubóta þegar allt virðist stefna í að um hreinar vanefndir verði að ræða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. forseti. Ég hefði auðvitað talið fullkomna ástæðu til að óska eftir því að þessari umræðu yrði frestað og henni yrði ekki lokið fyrr en kostur gæfist á því að halda henni áfram að viðstöddum hæstv. fjmrh. þannig að við gætum einnig lagt fyrir hann spurningar um það hvernig þessi mál standi frá sjónarhóli fjmrn. og ég vil spyrja hæstv. forseta að lokum hvort forseti er ekki tilbúinn til að verða við slíkri ósk.