Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:37:51 (965)


[15:37]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður sá ástæðu til þess að geta nærveru minnar í síðustu ræðu sinni um það mál sem hér er á dagskrá. Hann var reyndar ekki að tala mikið í seinni ræðu sinni um það mál sem hér er á dagskrá, heldur annað málefni sem ekki heyrir undir það frv. eða varðar efnisatriði þess frv. sem hér er til umræðu. Ég vek athygli á því að það sem hér er til umræðu er frv. til húsaleigulaga, frv. til laga um húsaleigusamninga og annað sem þeim tengist. Hér er ekki verið að fjalla um húsaleigubætur heldur umgjörð og ramma sem löggjafinn hyggst setja utan um útleigu húsnæðis. Hér er um að ræða frv. sem nú er verið að flytja í þriðja sinn. Það hefur fengið mjög vandaða meðferð --- ég vil segja óvenju vandaða meðferð, bæði í félmrn. og á hinu háa Alþingi og er mikið þjóðþrifamál vil ég leyfa mér að fullyrða og brýnt þingmál sem ástæða er til að lögfesta hið allra fyrsta. Í þessu frv. eru margvíslegar réttarbætur fyrir leigutaka og leigusala á hinum almenna húsaleigumarkaði sem ég held að sé nokkuð víðtæk samstaða um að sé orðið tímabært að hrinda í framkvæmd og koma í lög.
    Ég hef hins vegar orðið var við það að menn eru að reyna að teygja þessar umræður nokkuð yfir á aðrar brautir og það hafa tveir hv. þm. gert. Þeir vilja tala um húsaleigubætur í tengslum við þetta frv. og ég tek það svo að þeir hafi þá ekki miklar efnisathugasemdir við sjálft frv., enda hefur það komið fram í ræðum þeirra að í þessu 87 greina frv. sem hér er til meðferðar þá séu ekki miklar athugasemdir við það. Það kom held ég ein efnisathugasemd frá hv. 4. þm. Norðurl. e. í sambandi við úttektarmenn og má vera að hv. 2. þm. Austurl. hafi haft eina eða tvær slíkar athugasemdir.
    En hvað varðar það atriði sem þessir ágætu hv. þm. vilja ræða hér um, þ.e. húsaleigubætur, þá er auðvitað engu við það að bæta sem hæstv. félmrh. sagði um það efni. Það er ekki komin niðurstaða í það mál milli stjórnarflokkanna og hv. 4. þm. Norðurl. e. var það lengi í ríkisstjórn að hann kannast við að það getur verið bið á því að stjórnarflokkar nái niðurstöðu í málum. Það er því út af fyrir sig engin nýlunda þó að dráttur verði á því að niðurstaða fáist í mikilvægum málefnum. Hins vegar er það svo að þetta mál hefur verið til umfjöllunar og félmrh. lýsti því nákvæmlega rétt hvernig staða þess máls er. Ég get hins vegar ekki tekið undir öll hennar sjónarmið í því máli, ég tel að hún hafi gert ágætlega grein fyrir sínum sjónarmiðum í þessu og væntanlega Alþfl. En málið er sem sagt það, að því er þetta varðar, að niðurstaða er ekki fengin milli stjórnarflokkanna og menn verða bara að gjöra svo vel að una því, þeir sem eru að bera fram fyrirspurnir, að það er svarið að svo stöddu.
    Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt, virðulegi forseti, að ætla að fresta umræðunni vegna fjarveru fjmrh. vegna þess að þetta mál sem hér er til umræðu, frv. til húsaleigulaga, heyrir ekki undir fjmrh. Það heyrir undir félmrh., hann hefur mælt fyrir því og situr hér fyrir svörum út af þessu frv. Þess vegna finnst mér það mjög óeðlileg ósk að fara fram á að umræðunni verði frestað vegna fjarveru ráðherra sem þetta mál heyrir ekki undir.
    Virðulegi forseti. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að fjalla efnislega og ítarlega um þetta frv. Þetta er mjög ítarlegt frv., 87 greinar, eins og ég hef sagt. Það er auðvitað spurning um stefnu í lagasetningu hversu ítarleg svona frv. eigi að vera og það er ljóst að bæði í þessu máli og hinu fyrra sem hér var á dagskrá fyrr á fundinum er tekin sú stefna að reyna að hafa löggjöfina sem ítarlegasta. Það má auðvitað færa mörg rök fyrir því en það má líka segja sem svo að kannski væri skynsamlegra að hafa löggjöfina rúmari og almennari. En ég hygg að í þessum málefnum, þar sem oft er tekist á um mjög viðkvæm samskiptamál milli fólks, sé það ekki óskynsamleg stefna að setja ítarlega löggjöf sem reynir að girða fyrir sem mestan ágreining og árekstra sem kunna að verða milli samskiptaaðila á þeim vettvangi sem verið er að fjalla um.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. lét þess getið í sínu máli áðan að mikið væri um það að fólk leigði húsnæði án þess að hafa nokkurn samning í höndum. Ég hygg að það sé vafalaust rétt hjá honum. Það er í og með vegna þess að sú löggjöf sem í gildi hefur verið um þessi málefni hefur verið ófullkomin og það hefur verið tilhneiging til þess að veigra sér við því að gera slíka samninga. Ég tel að úr því sé verulega bætt með því frv. sem hér er til meðferðar og það sé þess vegna mjög brýnt mál og hagsmunamál leigjenda, leigusala og annarra sem hagsmuni hafa af því að samskipti séu eðlileg og greið á þessu sviði, þar með talið ríkisins vegna skatttekna, að þetta mál fái sem greiðastan framgang í þinginu en ekki sé reynt að drepa því á dreif með umræðum um hluti sem tengjast frekar fjárlögum og yrði flutt sem annað þingmál, ef til þess kæmi, húsaleigubætur eða annað þess háttar.
    Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti.