Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:56:19 (975)


[15:56]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. hefur skilið það alveg rétt að við erum m.a. að reka eftir þessum svörum vegna þess að okkur er það kappsmál, a.m.k. mér að þessar húsaleigubætur komist á og hefur lengi verið. Ég get reitt fram plögg og gögn allt frá miðjum síðasta áratug sem ég veit að hæstv. félmrh. man eftir til að vitna um mína afstöðu í þessu máli til langs Hún breyttist ekkert, hvorki í tíð síðustu ríkisstjórnar né hefur hún gert það síðan þannig að hæstv. félmrh. verður a.m.k. að skýra mál sitt betur en svo að láta að því liggja að það hafi eitthvað skort á minn stuðning við það að húsaleigubætur nái fram að ganga jafnt þá sem nú. Og ætli það sé nú ekki þannig ef hæstv. félmrh. rifjar þetta betur upp að hún hafi átt í þeim erfiðleikum í sinni eigin fjölskyldu, hæstv. ráðherra, þ.e. í Alþfl. með að fá órofastuðning við þetta fyrirkomulag. Ég er ekki alveg viss um, svo að ég leyfi mér nú bara að velta vöngum yfir því t.d., að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. hafi verið brennandi í andanum sem áhugamaður og stuðningsmaður þess að taka hér upp húsaleigubætur. En e.t.v. vill hæstv. félmrh. upplýsa það betur hvernig viðhorfum formanns flokks hennar er háttað.
    Mér þóttu hins vegar athyglisverð og ég vona að hæstv. félmrh. hafi lagt eyrun við síðustu orð hv. 8. þm. Reykv., Geirs Haarde og formanns þingflokks Sjálfstfl. En hann lauk máli sínu á því að segja svo og svo, hvort sem húsaleigubætur verða nú einhvern tíma teknar upp eða ekki. Mér fannst ekki felast í þeim orðum mikil skírskotun til þess að það sé eitthvað fast í hendi í þessum efnum, hæstv. félmrh., og er nema von að við spyrjum, óbreyttir þingmenn, hvað sé á döfinni í þessum málum. Það er ekki verið að spyrja að tilefnislausu. Það er skjalfest í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að þetta eigi að taka upp og það reyndar átti að gera strax á árinu 1992, þannig að við erum ekki að spyrja að tilefnislausu.