Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:02:02 (979)

[16:02]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð sem innlegg í þessa umræðu. Fari svo að fram verði lagt frv. til húsaleigubóta þá vil ég benda á þá staðreynd að það er eins og menn hafi ekki gert sér ljóst eða gengið leiðina til enda að staðgreiðslukerfi í þessu landi. Ég vil benda á að t.d. endurgreiðsla námslána miðast við brúttótekjur manna þegar þeir koma heim frá námi og hefja greiðslur. Það er auðvitað með öllu ósanngjarnt þar sem fólk sér auðvitað aldrei það sem tekið er með staðgreiðslum en er ekki lengur með þetta fé á milli handanna í einhvern tíma. Þess vegna vildi ég nú biðja hæstv. félmrh. að hafa það á bak við eyrað þegar farið verður að reikna mönnum húsaleigubætur að það sé ekki líka gert af brúttólaunum vegna þess að það gagnast fólki á engan hátt sem fólk aldrei sér nema sem tölu á launaseðlum sínum. Og ég held satt best að segja að það væri verkefni fyrir hæstv. fjmrh. að taka til og samræma þessi atriði. Ég hef grun um að þetta sé víðar í kerfinu að menn reikni bætur til fólks eftir brúttótekjum en ekki þeim raunverulegu tekjum sem það hefur eftir að staðgreiðslukerfi var komið á. Þetta vildi ég biðja hæstv. félmrh. að íhuga. Ég er ekki svo vel að mér að ég muni eða kunni hvort t.d. greiðslugeta manna við útreikning á húsbréfum miðast við brúttótekjur eða raunverulegar tekjur sem menn fá í hendurnar og ráðherra gæti kannski upplýst það, en ég veit að þetta er sums staðar svona við áætlanir af þessu tagi. Og þetta þykir mér mjög mikilvægt að heldur fyrr en seinna verði farið að samræma allt kerfið við þá grundvallarbreytingu sem varð þegar staðgreiðslukerfi var komið á.