Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:04:37 (980)


[16:04]
     Þuríður Pálsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þegar verið var að fjalla um þessi frumvörp þá komu mér satt að segja ekki í hug húsaleigubæturnar. En það virtist verða aðalmálið hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Þá datt mér í hug að Húseigendafélagið sendi tilkynningu í Morgunblaðið um að það samþykkti húsaleigubætur. Svo las ég nú greinina til enda og neðsta málsgreinin hljóðaði þannig: ,,Svo framarlega sem leigutekjur yrðu ekki skattlagðar.``
    Hv. þm. hafa nefnilega talað mikið um að menn gefi ekki upp húsaleiguna, að leigjendur búi við slæm kjör og okurverð en geta samt ekki gefið upp hvað þeir borga mikið. Þá spyr ég: Hver í veröldinni ætlar þá að meta það hver á að fá húsaleigubætur, ef menn gefa upp að þeir borgi 15 þús. kr. en borga kannski 45 þús. kr.? Og hverjum á að reikna bætur?
    Svo er annað til sem er stór spurning: Hvaða markhópur er þetta? Hvaða fólk er þetta sem við ætlum að greiða bætur? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: Barnafólk, og ég man ekki hvað meira. Mig langar til þess að benda honum á það að sjálfsbjargarfólk í þjóðfélaginu sem er margtekjutengt í bak og fyrir og greiðir meira og minna fyrir bæði þetta og annað er sjálft barnafólk með þungar skuldir og situr eftir algerlega staurblankt og hefur ekkert eftir til þess að borga öðrum bætur.
    Mig langar aðeins til að minnast á þessi frumvörp sem verið var að tala um. Það hefur oft komið fyrir hér á Alþingi, virðulegi forseti, að lagafrumvörp hafa verið mjög flausturslega unnin að mínu mati og oft á þann veg að þau gera meira ógagn en gagn. Og einnig í sumum tilfellum er ógerlegt að framfylgja þeim samanber þau lög sem ég þarf að vinna eftir. Þá geta lagafrumvörpin iðulega leynt á sér mjög varðandi það að þau hafa í för með sér útgjaldaaukningu fyrir einhvern hóp í þjóðfélaginu sem þingmenn gera sér enga grein fyrir fyrr en eftir á vegna þess að þau eru einfaldlega ekki nógu vel unnin. Þetta þótti mér í fyrra um mörg frumvörp sem voru á leiðinni, en ég verð þó að segja það að þessi tvö frumvörp eru mjög vel unnin, sérstaklega húsaleigufrv. Og sannleikurinn er sá að það er mjög nauðsynlegt að einmitt frumvarp varðandi fjöleignarhús sé skýrt og vel afmarkað vegna þess að það eru sleitulausar deilur í þessum húsum. Fólk þarf að vita hvað það á að gera, hvernig það á að bregðast við, hvaða rétt það hefur. Þetta þekki ég mjög vel og það er afar nauðsynlegt að hafa þetta skilmerkilegt og gott þó náttúrlega megi sníða þessa annmarka af sem ég er algerlega sammála eins og t.d. þessa skilgreiningu á því hvað sé hús.
    Einnig er það í sambandi við húsaleigulögin. Þau eru mjög vel unnin og þau eru til mikilla hagsbóta fyrir leigjendur. Ég þekki þau líka svolítið. Mér fannst frv. of langt og mætti kannski stytta það, en aðalatriðið er að lögin séu skýr, vel unnin og það sé hægt að fara eftir þeim. Og mér finnst það satt að segja mjög leiðinlegt að heyra hv. þm. vera með skens langt út fyrir þessi frumvörp sem hafa mikið að segja fyrir húseigendur og leigjendur þessa lands.