Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:11:24 (982)


[16:11]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aðeins örstutt. Hér er farið að ræða efnislega um húsaleigubætur sem sýnir að það er nauðsynlegt að frv. komi sem fyrst inn í þingið. Það er alveg ljóst hverjir eiga að fá þessar húsaleigubætur. Það fólk sem er á almennum markaði og er innan tekjumarka félagslega húsnæðiskerfisins. Húsaleigan sem slík hefur mjög lítil áhrif á húsaleigubætur vegna þess að það yrði myndaður ákveðinn grunnstofn bótanna og síðan yrði ákveðin upphæð fyrir hvert barn í fjölskyldunni. En húsaleigan sem slík, það væri ekki nema 12% af þeirri upphæð sem hefði áhrif á húsaleigubæturnar, þannig að þó að leiga hækkaði um einhverjar 10.000 kr. þá mundi það ekki hækka húsaleigubætur nema um 1.200 kr. Ég hélt að þessari skýrslu, sem gerð var á sínum tíma af nefndinni og kom út fyrir nokkrum mánuðum síðan, hefði verið dreift meðal þingmanna, ég man ekki betur. Þar var þetta nákvæmlega skýrt. En ég held að það sé nauðsynlegt að þetta frv. fái að koma inn í þingið sem fyrst.