Stytting vinnutíma

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:13:45 (984)

[16:13]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um styttingu vinnutíma sem er að finna á þskj. 80. Flutningskonur auk mín eru aðrar þingkonur Kvennalistans. Tillögutextinn er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir styttingu vinnuvikunnar með það að markmiði m.a. að skapa fleiri störf. Vinnuvika í dagvinnu verði stytt í 35 stundir í áföngum og án kjaraskerðingar. Haft verði samráð við aðila vinnumarkaðarins og jafnframt kannað hvort slík aðgerð geti verið liður í kjarasamningum.``
    Tillagan er endurflutt frá sl. vori en þá gafst ekki tími til þess í hv. félmn. að fjalla um hana að öðru leyti en því að tillagan var send út til umsagnar. Greinargerðin er að hluta til með nýjum upplýsingum sem mig langar til að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Atvinnuleysi hefur vaxið á undanförnum árum. Frá því í september 1992 til ágústloka 1993 var það 4% að meðaltali þrátt fyrir að gripið hafi verið til allnokkurra aðgerða gegn atvinnuleysi. Þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi hefur vinnudagur Íslendinga lítið styst og lengdist raunar milli ára hjá ýmsum stéttum frá ársbyrjun 1992 til ársbyrjunar 1993. Meðalvinnutími fullvinnandi fólks var á fyrsta ársfjórðungi 1993

46,2 stundir á viku samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar.``
    Einnig er rétt að vekja athygli á því að fskj. IV er nýtt enda er bókin um atvinnulausa á Íslandi ný af nálinni.
    Varðandi umsagnirnar sem borist hafa þá er skemmst frá því að segja að þeir fjórir umsagnaraðilar sem svarað hafa eru allir meira eða minna fylgjandi efni tillögunnar, ASÍ slær þó þann varnagla að hyggilegast sé að láta fara fram könnun á því hvort unnt sé að ná markmiðum tillögunnar með víðtæku samráði við aðila vinnumarkaðarins og með því að byrja á slíkri könnun. Mér finnst sjálfsagt að hv. nefnd íhugi hvort slík könnun væri fyrsta skrefið í átt að styttingu vinnutíma eða hvort heilladrýgra sé að stíga skrefið til fulls eins og tillögutextinn gerir ráð fyrir.
    Í umsögn BSRB til nefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,BSRB mælir með samþykkt tillögunnar. Það hefur verið krafa BSRB til margra ára að stytta vinnutímann án kjaraskerðingar og hafa hagsmunir fjölskyldunnar og vaktavinnufólks t.d. verið hafðir sérstaklega í huga í því sambandi. Nú þegar aukið atvinnuleysi þjakar þjóðina kemur nýtt sjónarmið inn í þessa umræðu sem BSRB telur að eigi að taka tillit til.``
    Í umsögn frá Kvenfélagasambandi Íslands segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í greinargerð tillögunnar segir: Með styttingu vinnutíma er hægt að skapa fjölmörg störf og spara samfélaginu umtalsverðar fúlgur sem ella væru greiddar í atvinnuleysisbætur. Fjárhagslega séð er þetta rökrétt en stytting vinnutíma hjá svo vinnufirrtri þjóð sem Íslendingum hefði marga frekari kosti upp á að bjóða.``
    Síðan eru nokkir þessara kosta raktir, m.a. að með fleiri stöðugildum mætti jafna vinnuþátttöku, vinnuálag og sókn í yfirvinnu muni ekki breytast en að augljóst sé að launakjör almennings verði að endurskoða í kjölfarið á slíkri breytingu sem þarna er lögð til. Og undir lok umsagnarinnar er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Það er skoðun stjórnar Kvenfélagasambands Íslands að ærin ástæða sé til að endurskoða lengd vinnuvikunnar og taka þarf mið af öllum þáttum mannlífsins, ekki síst til aðstæðna, til uppeldis og aðhlynningar komandi kynslóða.``
    Í umsögn Starfsmannafélags ríkisstofnana segir m.a.:
    ,,Starfsmannafélag ríkisstofnana mælir með því að till. til þál. nr. 925 verði samþykkt. Það hefur lengi verið krafa SFR að vinnutíminn verði styttur án þess að kjör verði skert á nokkurn hátt. SFR hefur lagt mikla áherslu á fjölskyldupólitík til margra ára í ályktunum sínum frá aðalfundum félagsins. Með styttingu vinnutímans telur félagið m.a. að hagsmunum barna sé betur borgið en nú er þó margt annað þurfi þar líka að koma til. SFR telur brýnt að leita allra leiða til að allir hafi atvinnu við sitt hæfi, stytting vinnutíma er spor í þá átt.``
    Og í umsögn ASÍ segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn ASÍ tekur einnig undir það sjónarmið að vinnutími hér á landi sé oft óheyrilega langur. Miðstjórnin telur hins vegar ekki sýnt að stytting vinnutíma skapi ný störf í sama hlutfalli og vinnutími styttist.`` --- Hér langar mig að skjóta því inn að ég er afskaplega sammála þessu. Ég veit að það mun fleira gerast en ég tel að hvert eitt nýtt starf sem mundi skapast með þessum hætti væri vel þess virði að reyna þetta og ég mun víkja ef tími leyfir til aðeins nánar að þessu á eftir. En áfram halda þeir ASÍ-menn: ,,Reynsla annarra þjóða sýnir að ekki er um beint samhengi þarna að ræða og reyndar sýnir okkar eigin reynsla t.d. frá yfirvinnubanninu 1977 að stytting vinnutíma þarf ekki að draga úr afköstum. Í raun hefur vinnutími styst mikið hér á landi á undanförnum missirum, fólki hefur fækkað, afköst hafa aukist og framleiðniaukning hefur orðið töluverð t.d. í fiskiðnaði. Það er líklegt að stytting vinnutíma auki framleiðni og jafnvel launakostnað fyrirtækjanna og óvíst er hvort þeir telji sér hag í að skapa fleiri störf.``
    Undir lokin er sagt í þessari umsögn:
    ,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands styður hins vegar að gerð sé ítarleg könnun á því hvort vinnutímastytting geti orðið til þess að störfum fjölgi hér á landi. Í því sambandi er samráð við aðila vinnumarkaðarins sjálfsagt. Hvort um það geti verið að ræða að slíkar aðgerðir séu liður í kjarasamningum er að sjálfsögðu málefni sem aðilar vinnumarkaðarins taka ákvörðun um sjálfir sín á milli.``
    Varðandi þetta seinasta þá vil ég benda á það að þriðji aðilinn, ríkið, hefur stundum komið inn í mál kjarasamninga þó það megi sjálfsagt um það deila hversu æskilegt það er og hvort vinnuveitendum sé ekki oft og tíðum hlíft hreint of mikið. En ég get tekið undir flest það sem kemur fram í þessum umsögnum.
    Varðandi efasemdir ASÍ um að atvinnurekendur séu í stakk búnir til að hækka laun þá vona ég að það sé meiri vonarhugur í mönnum þar á bæ nú þegar enn einum kostnaðinum er af fyrirtækjum létt með þeirri vaxtalækkun sem ég vona að hilli undir núna.
    Ég tek undir það að styttri vinnutími þarf ekki endilega að merkja að afköst verði umtalsvert minni. Því býst enginn við að störfin sem skapast við styttingu vinnutímans verði jafnmörg og klukkustundirnar gætu gefið til kynna, en það munar um hvert eitt starf og fyrir atvinnurekendur er þetta enn ein sönnunin um að þeir ættu að geta stytt vinnutíma starfsfólks síns án kjaraskerðingar. Ég tel fulla ástæðu til að láta á það reyna hvort atvinnurekendur væru reiðubúnir til að vinna að þessu máli sem er til heilla fyrir alla, starfsmenn, fyrirtæki og fjölskyldur landsins. Ég ítreka það sem stendur í greinargerð þessarar tillögu að

það hefur miklu verið létt af fyrirtækjum og mörg hver ættu að geta gert þetta án hjálpar. Það stendur einnig í greinargerðinni að það mætti alveg íhuga það að þau fyrirtæki, sem ekki eru í stakk búin til að standa sig í slíkri styttingu vinnutíma, fengju tímabundna hjálp á meðan þau væru að aðlagast breyttum háttum.
    Mér finnst einnig rétt að íhuga hvort ríki og sveitarfélög ættu ekki að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er talað mikið nú um tíðir um reynslusveitarfélög og það er kannski tími til kominn að velta fyrir sér reynsluvinnustöðum.
    Ég vek einnig athygli á tillögu sem við kvennalistakonur fluttum á síðasta þingi um sveigjanlegan vinnutíma. Ég held að nauðsynlegt sé að huga að þeim málum meðfram styttingu vinnutíma. Er ég mælti fyrir þessari tillögu undir þinglok þann 20. apríl sl. sagði hæstv. félmrh. í þeirri umræðu, með leyfi forseta: ,, . . .  að í september 1987 skipaði ég [þ.e. hæstv. félmrh.] nefnd sem falið var að leita leiða til að stytta vinnutíma án þess að tekjur skerðist og liggur fyrir ítarleg skýrsla í því sambandi en nefndin skilaði mér áliti í júlí 1988. Ábendingar nefndarinnar beindust einkum að tveimur þáttum.
    Í fyrsta lagi bendir nefndin á atriði sem samningsaðilar á vinnumarkaði gætu beitt sér fyrir með samningum sín á milli. Nefndin lagði til að samningsaðilar semji um lækkun yfirvinnukaups en hækkun dagvinnulauna.
    Í öðru lagi benti nefndin á nokkrar stjórnvaldsaðgerðir sem eru til þess fallnar að stytta vinnutímann. M.a. er bent á staðgreiðslu fyrirtækja á sköttum af launagreiðslum og takmörkun á yfirvinnu með lögum.``
    Ástæður fyrir því að þessar tillögur náðu ekki fram að ganga, þótt mjög vægar séu að mínu mati, rakti hæstv. ráðherra síðan til þess að undirtekir aðila vinnumarkaðarins hefðu verið dræmar. Ég held að nú séu breyttir tímar, ekki þensla áranna 1987 og 1988 og nú sé lag, enda eru undirtektir nú að stærstum hluta jákvæðar þrátt fyrir að við úrtölutón kveði að vísu, eins og oft vill brenna við hjá einhverjum.
    Ég tel að hæstv. ráðherra hafi verið trúr sinni sannfæringu um að leita þyrfti ýmissa leiða í þessum málum er hún kynnti tillögur um úthlutun fjár til sérstaks atvinnuátaks kvenna og benti þá sérstaklega á þá nýjung að ráða í svokallaðar ,,skiptar stöður`` þar sem konur héldu óbreyttu kaupi en styttu vinnutíma og verðu viðbótartíma í nám. En ég hlýt vissulega að lýsa eftir og bíða eftir því að sjá sams konar tillögur um vinnu karla. Ég hef ekki orðið vör við slíkar tillögur, en ég held bæði að ýmsir karlar hefðu gott af því að geta stundað nám ásamt vinnu sinni og ég held líka að það verði að líta á þetta sem eitthvað sem er ekki bara fyrir konur.
    Það er án efa jákvætt fyrir hv. félmn., sem ég legg til að fái þessa tillögu að lokinni 1. umr. til umfjöllunar, að hafa öll þessi sjónarmið í huga við umfjöllun sína og jafnframt að reka á eftir því að fleiri umsagnir berist. Ég hef þá trú að ef einhvern tímann ætti að vera lag til þess að hrinda þessu sjálfsagða máli í framkvæmd þá væri það núna.
    Samkvæmt könnun á atvinnuleysi sem gerð var á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og birt er að hluta sem fskj. IV eins og ég áður nefndi, þá kemur í ljós að áhugi á styttingu vinnutíma er mestur hjá opinberum starfsmönnum og ég er þá að tala um styttingu vinnutíma sem úrræði gegn atvinnuleysi. Þetta segir kannski nokkra sögu um það hvar væri fýsilegast að byrja og þá verður maður auðvitað að höfða til þess að opinberir aðilar séu reiðubúnir til þess að hlusta á starfsfólk sitt. En á meðan þeir sem afstöðu tóku til málsins, 67,1%, eru sammála þeirri fullyrðingu að þegar atvinna er af skornum skammti þá ætti að stytta vinnuvikuna í þeirri von að fleiri geti fengið starf. Hér reikna ég öðruvísi en í greinargerðinni, aðeins þá sem taka afstöðu, en allir eru teknir með í greinargerðinni og ég vek athygli á því. --- 77,3% þeirra sem eru í opinberri þjónustu eru sammála þessari leið, 10% fleiri en í öðrum stéttum. Mér finnst að þetta sé allrar athygli vert og segi kannski dálítið um það hvernig hyggilegt væri að vinna að slíku máli. En ég er alveg sannfærð um það að þetta er mikið nauðsynjamál og ekki síst vegna þess að við höfum verið, eins og ég held ég hafi haft eftir úr umsögnum, við erum vinnufirrt þjóð að mörgu leyti og ég held að það sé orðið nauðsynlegt að grípa í taumana og nota tækifærið núna þegar atvinnuleysi hefur barið að dyrum og nýta þessa leið til að jafna atvinnu milli fólks og gera okkar samfélag skaplegra.
    Að lokinni þessari umræðu þá vil ég leggja til að þessari tillögu verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn.